Á kvöldin upplifa margir þörfina til að fá sér eitthvað sætt. Þessi auðveldi sorbet-ís er léttur, ljúffengur og laus við allt sem kemur samviskubitinu af stað.
INNIHALD
300gr. frosin hindber
1 msk. Stevia sætuefni
3-4 msk. Aloe Vera vatn með vatnsmelónubragði (fæst m.a. í Bónus)
Fersk ber til að skreyta
AÐFERÐ
Setjið frosin hindber í blandara eða ílát sem hentar töfrasprota. Hellið yfir þau Aloe Vera vatninu og látið liggja í smástund svo berin þiðni örlítið. Notið svo töfrasprotann til að mauka berin eða setjið blandarann á fullt. Þegar berin hafa maukast er Stevia bætt við og aftur blandað vel saman. Ef ykkur finnst blandan vera of þétt er hægt að bæta við meira Aloe Vera vatni til að gera hana þynnri. Til að ná fram sorbet-áferðinni er þó betra að hafa minna en meira af vökva í blöndunni.
Síðan má skreyta litla létta sorbet-ísinn með ferskum berjum og jafnvel einu mintulaufi.
Berið fram samstundis.
RÁÐLEGGING
Það má líka setja vanillusykur eða agave-sýróp ef Stevia hentar ekki. Einnig er hægt að skipta út hindberjunum fyrir önnur frosin ber eins og jarðaber. Þar að auki er hægt að blanda við þetta ferskri vatsmelónu, afhýddum vínberjum og í raun hvaða berjum sem er.
Frábær eftirréttur sem slekkur alveg í sætindaþörfinni og þaggar í kökuskrímslinu.

Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.