Ég er klárlega ein af þessum týpum sem elskar að snakka, sérstaklega yfir góðri mynd eða einhverju álíka kósý.
Þar sem ég þekki mig betur en svo að halda að ég geti sleppt því þá reyni ég að spila dálítið á mig og klæði einhvað óhollt í hollan búning. Oftar en ekki er útkoman margfalt betri heldur en óholla stöffið og allir vinna.
Það rann á mig eitthvað snakkæði um daginn og ég ákvað að prufa mig aðeins áfram. Kúrbítssnakkið kom ekkert smá á óvart, þó það líti kannski dálítið furðulega út var það mjög krispí og létt! Ég ætla samt ekkert að ljúga en sætkartöflusnakkið er klárlega nýja uppáhaldið mitt, þvílíkt lostæti!
Innihald Kúrbítssnakk
- 1 stór kúrbítur
- 1 msk brædd kókosolía
- Krydd að eigin vali: Ég notaði sjávarsalt og cayenne pipar
Aðferð
- Stilla ofninn á 110°.
- Skera kúrbítinn í þunnar sneiðar.
- Raðið sneiðunum á eldhúspappír og leggið annan pappír ofan á. Gott er að þrýsta með ofnskúffu eða bara vel með höndunum. Þetta dregur úr þeim vökvann sem gerir þær vel krispí.
- Raðið svo sneiðunum frekar þétt á bökunarpappír og penslið með olíu. Athuga að setja ekki of mikið af olíu.
- Kryddið eftir smekk en athuga að krydda ekki of mikið! Sneiðarnar minnka í ofninum og það er betra að bæta frekar við kryddi eftir á.
- Bakið kúrbítinn í rúmlega tvo tíma eða þar til hann er orðin brúnn og stökkur!
- Láta snakkið kólna og þá er sniðugt að henda í eina ídýfu: Hræra saman gríska jógúrt og smá dijon sinnep, NOM!
Innihald Sætkartöflusnakk
- Stór sæt kartafla
- 1 msk brædd kókosolía
- Krydd að eigin vali: Ég notaði sjávarsalt og rósmarín
Aðferð
- Stilla ofninn á 205°.
- Skerið sætu kartöfluna í eins þunnar sneiðar og hægt er.
- Setjið saman í skál olíu og krydd og hrærið. Veltið sneiðunum uppúr blöndunni.
- Raðið sneiðunum nokkuð þétt á bökunar pappír og bakið í rúmlega 25-30 mín eða þar til brúnirnar eru vel krispí. Snúið sneiðunum við þegar bökunartíminn er hálfnaður.
- Takið snakkið út og leyfið því að kólna. Bæta við kryddi ef þess þarf.
Njótið!
Róberta Michelle Hall er fædd í Reykjavík en rekur rætur sínar til Bandaríkjanna eins og nafnið ber með sér. Hún á erfitt með að sitja kyrr og líður best með mörg járn í eldinum. Helstu áhugamál Róbertu eru líkamsrækt, sálarrækt og bakstur. Hún bakar allt milli himins og jarðar hvort sem það er óhollt eða hollt og lætur stundum aðra um að klára kökuna sem hún smakkar þó sjálf því gott skal það vera!