Það elska allir vöfflur og sumir meira en aðrir. Ameríkanar fá sér til að mynda vöfflur í morgunmat, já eða pönnukökur og þar er hægt að fá þær í allskonar útfærslum.
En hvað gera sælkerar þegar þeir vilja hugsa um heilsuna? Jú, þá er um að gera að útbúa bara svolítið hollari vöfflur.
Þessa uppskrift fengum við að láni hjá Cafe Sigrún en hér er m.a. notast við kókosolíu og sojamjólk í uppskriftina.
Best er að baka eina vöfflu í einu fyrir hvern og einn því þær eru svo miklu betri nýbakaðar heldur en kaldar. Það má einnig frysta vöfflur og setja þær kaldar í brauðristina! Þær verða hér um bil eins og nýbakaðar!
HOLLAR SPELTVÖFFLUR (um 20 stykki)
Innihald
- 200 g spelti
- 1 tsk vínsteinslyftiduft
- 2 msk agavesíróp
- 3 egg
- 0,5 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
- 2 msk kókosolía
- 150-200 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
Aðferð
Sigtið saman í stóra skál spelti og vínsteinslyftiduft.
Hrærið saman í annarri skál; egg, agavesíróp, vanilludropa og svolítið af sojamjólk (100 ml eða svo en bætið við eftir þörfum, allt að tvöfalt meira til viðbótar). Hrærið aðeins og bætið kókosolíunni út í. Hrærið vel.
Hellið varlega út í stóru skálina og notið sósupískara til að allt verði kekkjalaust.
Áferðin á að vera svona eins og á mjög þykkri súpu en ekki eins og á t.d. graut. Það er best að prófa sig áfram með þykktina á deiginu. Best er að deigið sé kekkjalaust.
Sumum finnst gott að setja svolítið kaffi í uppskriftina. Það gefur líka fallegan lit.
Berið fram með t.d. hlynsýrópi, hnetusmjöri, hindberjasultu (án sykurs), döðlusultu, rabarbarasultu, bláberjasultu, cashewhneturjóma (fyrir þá sem hafa mjólkuróþol), þeyttum rjóma og söxuðum heslihnetum.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.