Inflúensa, eða það sem við köllum í daglegu tali flensa, er bráð veirusýking sem orsakast af inflúensuveirum A og B og veldur faraldri nánast á hverjum vetri.
Hlutfall þeirra sem smitast og veikjast í faraldri er 10-40% og vara faraldrar gjarnan í 5-10 vikur.
Inflúensa A er algengari en inflúensa B, en báðar tegundir geta greinst í faraldri.
Nú hefur inflúensa greinst hér á landi enn og aftur og er nokkuð skæð að þessu sinni sem og annarsstaðar á Norðurlöndum.
Dæmigerð inflúensa byrjar oft skyndilega eftir eins til tveggja daga meðgöngutíma, en talið er að smit milli manna sé mest með úða frá öndunarfærum. Margir sjúklingar geta sagt nákvæmlega upp á klukkustund hvenær einkenni byrjuðu.
Það er hægt að gera nokkra hluti til að forðast að leggjast í pest og volæði. Mikilvægast er að þvo sér um hendurnar oft og iðulega, hreinlega eins og óð værir. Sérstaklega eftir að hafa verið í ræktinni eða á mannmörgum stöðum. Þetta verður ekki endurtekið of oft… því segjum við aftur:
1. Þvoðu þér um hendurnar
Veirurnar sem valda flensu geta borist til þín ef þú snertir mengað yfirborð eða tekur í höndina á einstaklingi sem er smitaður (hvort sem hún/hann veit það eða ekki). Ef þú þværð þér reglulega um hendurnar, drepast veirurnar og einnig er mjög mikilvægt að þvo sér vel um hendurnar fyrir máltíðir.
2. Notaðu bréfþurrkur
Haltu fyrir munninn með bréfþurrku þegar þú hnerrar eða hóstar, þannig forðar þú öðrum frá því að smitast af þér. Hentu bréfþurrkunum beint í ruslið eða sturtaðu þeim niður í klósett eftir að þú hefur hnerrað eða snýtt þér í þær. Þannig eiga aðrir ekki eftir að smitast af þér.
3. Haltu fyrir vitin
Ef þú ert ekki með bréfþurrkur skaltu halda fyrir vitin með því að bera olnbogabótina að vitunum. Ef þú hnerrar í lófann skaltu þvo þér strax um hendurnar á eftir.
4. Vertu heima ef þú færð flensu
Alls ekki pína þig í vinnuna ef þú færð flensu. Þá veldurðu atvinnurekanda þínum enn meira tjóni með því að smita starfsfélagana. Ef veikindin dragast á langinn og þér batnar ekki skaltu leita læknis.
5. Handspritt og gerildeyðir
Hafðu handspritt í töskunni og notaðu það reglulega, sérstaklega ef þú ert á ferð í almenningrými, veitingastöðum eða á vinnustað. Handspritt geta líka verið mjög nauðsynleg í ræktinni á tímum sem þessum og þá er um að gera fyrir þig að setja dropa í lófann fyrir og eftir æfingu og passa þig að snerta ekki andlitið með höndunum meðan á æfingunni stendur.
Farðu vel með þig!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.