Yves Saint Laurent er uppáhaldshönnuður ótalmargra karla og kvenna um allan heim. Þessi ástsæli hönnuður lést í fyrra en minning hans lifir áfram í tískunni.
YSL leiddi lengi tískuna á sinn sérstaka hátt. Hann tók til að mynda herraklæðnað og lagaði að okkur dömunum. Við þetta fór allt á hvolf og sló svo rækilega í gegn. Þannig bauð hann til dæmis konum að klæðast smóking, klæðnaði sem valdamiklir áhrifamenn höfðu löngum haft einkaréttinn á. Það má með sanni segja að Yves Saint Laurent sé maðurinn sem lagði þannig sitt af mörkum í kvenfrelsisbaráttunni.
Hver þekkir ekki smóking-dressið sem YSL kom svo kyrfilega á tískukortið og Helmut Newton gerði ódauðlegt með heimsfrægri ljósmynd í dökku húsasundi í París!? Margir tískuhönnuðir hafa síðan endurgert þetta mix af power-dragtinni hans Saint Laurent.
Sautján ára á framabraut hjá DIOR
Þegar Yves Saint Laurent var aðeins 17 ára réði hann sig í vinnu hjá Christian Dior. Ekki nema 21 árs aldri var hann gerður að aðalhönnuði hjá Dior en stuttu seinna andaðist Dior sjálfur og YSL tók algerlega yfir.
Hann forðaði fyrirtækinu frá gjaldþroti með allskonar tískusmellum, m.a. hinum fræga “trapizu” kjól og stjarna YSL skein skært en seinna lenti Saint Laurent í “skipulagsbreytingu” og missti starfið hjá Dior. Sjálfsagt varð það hið mesta gæfuspor í lífi Yves Saint því í kjölfarið opnaði hann sitt eigið tískuhús með dyggri aðstoð elskhugans, Pierre Berger.
Fatnaður og förðun
Árið 1978 hóf YSL að hanna snyrtivörur fyrir konurnar sem hann dýrkaði allt sitt líf. Sjálfur sagðist Yves Saint Laurent vilja skapa nýja ásjónu fyrir konuna og að sú sem klæddist fötunum hans þyrfti að hafa andlistfarða í stíl til að fullkomna útlitið. Mottóið hjá YSL hefur alltaf verið að förðun og föt myndi órofa heild. Eina reglan er sú að konan leyfi kvenleika sínum að skína í gegnum fallega förðun. YSL heiðrar fallega sterka liti sem draga fram það besta í fari hverrar konu.
Palette D’artiste
Nýju litanna frá YSL er alltaf beðið með eftirvæntingu. Það sem er sérstaklega eftirtektarvert hjá YSL núna er Palette D’artiste kinnaliturinn sem kom á markað síðasta vor. Blanda fjögurra ólíkra litatóna sem blanda má að vild og auðvitað…nota allann ársins hring.
Í litapallettunni er fallega brúnn litur sem nota má til að skyggja og móta andlitið. Þar er einnig appelsínulitaður tónn sem blanda má við þann brúna til að gefa andlitinu meiri hlýju. Þá er sömuleiðis yndislega ljóbleikur tónn sem nota má til að undirstrika förðunina. Að lokum er það leynivopnið – fallegur satínhvítur sem er flottur ofan á kinnbein og nef og gefur andlitinu sérstakan ljóma.
Í línunni er einnig Palette D´artiste augnskuggakvartettinn: Fjórir fallegir augnskuggar með satínkenndri áferð, alveg mattir. Litapalletan er gulli slegin og algert augnakonfekt, en litirnir sjálfir eru auðvitað æðislega flottir. Þar er heiðgulur, ísbleikur og piparmyntu grænn auk fjólublás litar, allir saman ljá þeir augnaráðinu aukna dýpt og dulúð – draga fram lit augnanna. Til að djúsa þetta enn betur er tilvalið að nota Everlong maskarann frá YSL sem er æðislegur og eggjandi, býr til “bamba”-augu, er punkturinn yfir i-ið og gefur heildarútlitinu flottan stíl!
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.