Ég leitaði til sérfræðings til að fá þefinn af vortískunni í skóm, hún Eva er forfallinn skófíkill og listakona sem svalar fíkn sinni (og fjármagnar kaupin) með því að vinna í skóbúð.
Við tókum smá rölt niður Laugaveginn og fengum líka að rýna í hennar persónulega skósafn sem er afar litríkt og smekklegt og heima hjá henni má sjá skó sem stofustáss á hillum og í gluggakistum, enda alveg óþarfi að fela skó inni í skáp sem eru svona fallegir.
Ég spurði Evu út í vortískuna í skóm og ráð við val af skóm og hún hafi þetta að segja:
“Skór eru mismunandi að gæðum og gerðum. Núna er mjög mikið af týpum í tísku og engin ein gerð er úti. Nema þá helst þvertá, allt annað virðist ganga. En ef eitthvað er í tísku þá er það einna helst fylltur hæll. Hann er að koma sterkur inn aftur og kannski endar þetta með að Buffaloskórniraftur komi aftur í tísku!
Hálffylltir hælar eru einnig í tísku, rúnuð tá eða mjó. Mér finnst persónulega að konur eigi að kaupa skó sem þeim finnst að klæði sig -sumt sem er í tísku klæðir ekki alla. “Gera skórnir þig glæsilegri”? …ætti spurningin að vera og “líður mér vel í þeim”?
Ég hef séð skó sem ég hef ekki áhuga á fara annari konu dásamlega vel. Það er gaman að skóa sig upp og eiga mismunandi skó fyrir mismunandi tilefni. Mér finnst samt best þegar maður verður ástfangin af skóm og notar þá liðlangann daginn. Þá gildir einu hvort þeir eru í tísku eða ekki, þeir eru bara ÞÚ!”
Að lokum benti Eva á að mikið væri um skó úr gerviefnum í kreppunni “Það er gott og blessað. Það verður samt að hafa í huga að þeir endast ekki alltaf jafn vel og skór sem eru úr ekta leðri eða rússkinni. Stundum vill maður skó sem endast og stundum vill maður kannski kaupa skó við eitt sérstakt tilefni, þetta er misjafnt.”
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.