Stundir sólarinnar hafa runnið upp og nú hellir hún sér inn um alla glugga og lýsir upp líf og okkar og tilveru… líka það sem við viljum helst ekki sjá.
Þá er átt við ryk og allskonar klíning á veggjum sem kallar á rækilega vorhreingerningu.
Á heimasíðu Leiðbeiningastöðva heimilanna er að finna allskonar gagnlegar upplýsingar um það sem snýr að heimilishaldi en hér höfum við fengið að láni nokkur heilræði frá þessum fróðu dömum en það er Kvenfélagasamband Íslands sem heldur síðunni úti og veitir þessa ráðgjöf:
Borðedik: Oft kallað glært edik er lífrænt þ.e. þynnt ediksýra. Borðedik klýfur fitu, nær fram gljáa og eyðir vondri lykt.
Heimagerður rúðuúði: Blandið vatni og ediki,1 hl. edik ámóti 10 af vatni í blómaúðabrúsa og úðið á gler og spegla. Þurrkið vel og strjúkið yfir með gömlum krumpuðum dagblöðum. Prentsvertan eykur gljáa.
Salernishreinsir: Ediki er hellt í skálina og látið liggja yfir nótt. Burstað vel og sturtað niður. Ef þvottur lætur lit er gott að leggja hann í bleyti í vatn með ediki , 4 msk af ediki í 5 l vatni. Látið liggja í ca ½ klst. Skolað og þvegið á venjubundin máta. Eins má setja dálítið af ediki í þvottavélina í stað þvottaefnis til að flík haldi betur lit sínum.
Sítróna: eyðir fitu og gefur ferska og góða lykt. Hún er líka áhrifarík við að þrífa kísil sem vill setjast í kringum blöndunartæki á baði og í eldhúsi. Einfaldast er að skera sítrónu í tvennt og nudda eða bera á óhreinindin, láta bíða um stund, skrúbba með bursta og skola vel með köldu vatni og þurrka.
Sama er að segja um sturtuklefa, en þeir vilja verða gráir og mattir af kísilnum úr hitaveituvatni. Nudda vel með sítrónu eða þvo með ediksblöndu. Láta liggja á og skola vel á eftir. Fyrirbyggjandi ráð er að gera sér að reglu að skola klefan eftir notkun með köldu vatni og helst þurrka líka.
Nýja ávaxtabletti í fötum er gott að nudda með sítrónuhelmingi og skola vel og þvo á eftir.
Sítróna er góð til að þrífa t.d. ísskáp og örbylgjuofn. Best er að setja skál með vatni og skera sítrónu í sneiðar út í og setja í örbylgjuofninn, stilla á hæstu stillingu í 2 mínútur. Þá hafa óhreinindin losnað og ekki annað eftir en að strjúka ofninn að innan, með rökum klút og þurrka síðan.
Flísar á baði og í eldhúsi verða skínandi hreinar ef þær eru nuddaðar með sundurskorinni sítrónu, látið liggja á svolitla stund og skolað vel á eftir og þurrka.
Edik og sítróna eru gagnleg á áfallin kopar. Þá er best að úða hlutin með ediksblönduðu vatni og salti.
Skera má sítrónu í 2 hluta og hafa gróft salt við höndina og nudda hlutinn með því. Láta bíða um stund og pússa síðan.
Ólykt úr sorpkvörn hverfur ef ef sítrónubörkur er látin ganga í gegnum kvörnina.
Sítrónudropar (bökunardropar) duga vel til að hreinsa límrestar af gleri.
Matarsódi og lyftiduft
Lögur á silfurhluti, sem auðvelt er að margfalda:
- 1 tsk. matarsódi
- 1 tsk lyftiduft
- 2 ½ dl soðið vatn (ekki nota hitaveituvatn).
Allt sett í plastílát, hrært vel í. Hlutirnir settir út í, látnir standa um stund. Skolað úr köldu vatni og fægt með mjúkum klút.
Matarsódi eyðir vondri lykt t.d. úr skápum, þá er best að setja 2-3 tsk í lítið ílát og láta standa í skápnum í nokkra daga.
Til að þvo eldhúsbekki og veggflísar er gott að strá matarsóda á rakan svamp og þurrkar yfir, nær mjög vel fitu. Þurrka yfir með hreinu vatni.
Blóðblettir geta verið erfiðir, en matarsódi hrærður með vatni í þykkan graut gerir gagn. Þá er „grauturinn“ borin á blettinn og látin þorna. Burstað af og þvegið.
Prófaðu einhverjar af þessum aðferðum í vorhreingerningunni og sjáðu hvort ekki sparist einhverjir aurar í útgjöldum fyrir dýr hreinsiefni!
Einu sinni er allt fyrst og náttúrulegu aðferðirnar eru ekki endilega síðri!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.