Það er yndislegt vor í París á næsta leiti. Eitt uppáhaldskaffihúsið mitt í borginni er kaffihúsið Bar du Marché í hjarta St.Germain hverfisins.
Þarna lúrir þessi litla sjoppa á horni tveggja fjölfarinna göngugatna þar sem allt iðar af lífi og fjöri frá morgni til kvölds. Götusóparar og ruslakarlar vekja hverfið fyrir allar aldir á morgnana. “Hviss, hvisss” heyrist í grænum sópunum þegar þeir sleikja göturnar. Sólin speglast í Signu sem liðast í gegnum borgina og það má næstum heyra árniðinn vagga þessu stóra borgarvirki rólega til og frá.
Þegar dagurinn rís upp með sólinni eftir langa nóttina rumskar hverfið loksins. Blómasalar leggja litríka blómastandana út á göturnar, blaðsölumaðurinn skottast á milli búðarhola að selja Le Monde, bakaríin draga fram bakkana fulla af baguette og corissante út úr ofninum.
Fólk er á þönum til og frá vinnu, inn og út úr metró, inn og út í litlu hverfisbúðina á horninu, flækingar húka með flöskuna sína á horninu sínu, röflandi endalaust. Þarna mitt í öllu þessu er litla vinalega kaffihúsið mitt, Bar du Marché – og þarna standa fastakúnnarnir við barinn, drekka morgunkaffið sitt og horfa á lífið.
Bar du Marché er sérstakur vin í túristaborginni, þarna eru nefnilega ekta Parísarbúar í bland við túristana auðvitað. Sértu á leiðinni til borgarinnar er þetta hiklaust staður til að hanga á, sötra vínglas og njóta sín.
Það er mjög skemmtilegt að sitja á stéttinni fyrir framan kaffihúsið, rabba við sessunauta sína og kynnast þeim betur, eða bara vera í friði með hugsunum sínum. Á heitum sumarkvöldum fátt þessu fram, en á köldum vetrarrdögum er stéttin aftur upphituð og engum ætti að verða kalt. Það er líka gaman að hanga við barinn þegar húmar að og hlusta á góða djazztónlist.
Um helgar gæti verið smá bið eftir borði en ekki láta slíkt flæma þig í burtu, enda eru þjónarnir liðlegir og sætir í sér. Það er ekkert verra að vera kvenmaður í leit að borði enda eru Frakkar sérstaklega stimamjúkir við fallegt kvenfólk. Þeir spígspora um kaffihúsið í einkennisklæðnaði staðarins, smekkbuxum og með sixpensara – alveg ekta franskir!
Maturinn á Bar du Marché er mjög góður, alls ekki dýr en uppaáhaldið mitt er croque madame með miklu sinnepi og rauðvínsglasi til að væta með kverkarnar á meðan umhverfið er sogað upp með augunum… Sjón er sögu ríkari !!!
75, rue du Seine
75006 Paris
Tel: +33 (0)1 43 26 55 15
Sa – Su: 12:00 – 02:00
http://www.bardumarche.com
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.