Í gærkvöldi fór ég aftur að sjá dansverk í leikhúsi. Í þetta sinn var það verkið Blæði: obsidian pieces sem í raun er ekki ein heildarsýning heldur 1+2+1. Damien Jalet samdi öll verkin utan eins sem hann samdi ásamt Ernu Ómarsdóttur.
Fyrsta senan, Les Médusés, er úr sjálfstæðu verki sem Damien samdi fyrir Louvre safnið. Svo koma tvær senur; báðar kaflar úr Babel, stærra og meira verki eftir Damien, en þriðja senan, Black Marrow, er samstarf Ernu og Damiens, sérlega útfært fyrir Íslenska dansflokkinn.
Nú verð ég að viðurkenna að ég, líkt og flestir aðrir á Íslandi, er ekki svo heppin að fá að sjá danssýningar reglulega. Það er einfaldlega vegna þess að hér á landi erum við fámenn og hefðin fyrir dansi mjög stutt á veg komin. Og þó…
Amma mín var reyndar í fyrsta hópnum sem sýndi ballett á sviði Þjóðleikhússins (og mörgum, mörgum árum síðar þróaðist sá ballettflokkur yfir í Íslenska dansflokkinn), mamma var svo alla tíð í ballett sem krakki og sjálf dansaði ég fram á unglingsár svo ég er alin upp við að dans er eitthvað jákvætt, frábært og skemmtilegt… en að maður fari og sjái dansverk á sviðum leikhúsanna í borginni er eitthvað sem gerist örsjaldan.
Það er kannski út af þessu sem ég ætlaði út úr líkamanum af gleði í síðustu viku þegar ég sá Svartar fjaðrir? Þar fékk ég líka tvo fyrir einn, bæði ljóð og dans en hvort um sig er frekar mikið “spari” í menningunni. Maður er hálfpartinn eins og sársvangur menningargammur “culture vulture” þegar dansinn loks dúkkar upp hvað þá í bland við klassísk íslensk ljóð! Ég var því örlát og gaf Svörtum fjöðrum heilar fimm stjörnur.
Athyglin flögraði ekki í eina sekúndu
Blæði er önnur ella. Reyndar allt önnur ella enda alls fjórar ellur ef út í það er farið. Fjórar mismunandi senur.
Sú fyrsta, Les Médusés, skartar þremur kvenkyns dönsurum sem eiga að tákna myndastyttur, gyðjur í höggmyndagarði við Louvre safnið. Þær klæðast búningum eftir Bernhard Wilhelm, en sá hannaði einmitt búningana fyrir Björku á Volta plötunni. Hér má sjá atriðið í Louvre en myndskeiðið er af vef Damien Jalet.
[vimeo]https://vimeo.com/67782176[/vimeo]
Næstu tvær senur eru úr verkinu Babel en þar sér maður annarsvegar par, karl og konu, taka undurfagra Yin Yan sveiflu um erfðasyndina og hinsvegar hóp af dönsurum í senunni The Evocation en senan er túlkun á athöfn innan súfisma, þar sem endurtekning á einu orði er notað til að varpa burt álögum. Þessar tvær senur stálu athygli minni 110%.
Hugurinn og athyglin flögraði ekki frá í eina sekúndu. Fegurðin þótti mér hreint dásamleg og sérlega var hún heillandi fyrir minn innri jafnréttissinna sem horfði á dansparið takast á með líkamlegri tjáningu, bæði bara á buxunum, sterk, liðug og falleg.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=vC6ja3Xk8oY[/youtube]
Black marrow fjallar um „kæfandi heim þar sem eðlishvötin hefur verið iðnvædd.” Ekki að sú setning útskýri það sem fyrir augu ber en verkið er alveg magnað! Sjón er sögu ríkari.
Útfærslurnar/hreyfingarnar/stellingarnar eru svo stórkostlegar að maður er hreinlega bara hissa á því að þetta sé yfirleitt hægt… að líkaminn geti yfirleitt eitthvað svona… og virðingin fyrir dönsurunum verður djúp og einlæg. Þvílík tenging og vald sem þetta fólk hefur á líkömum sínum, – svo ekki sé minnst á úthaldið.
„Talking about music is like dancing about architecture,” segir máltækið.
Ég verð að segja að mér finnst jafn erfitt að lýsa þessari danssýningu með orðum. Það eina sem ég get sagt er brjóttu sparibaukinn þinn og skelltu þér í Borgarleikhúsið. Þetta snýst fyrst og síðast um upplifun; Krafta sem fylla rýmið, tónlist sem yfirtekur heyrnina og aðdáun á því undursamlega sköpunarverki sem mannslíkaminn er. Það eru stjörnur í boði þessa vikuna… aftur fimm! Dimmalimm!
[usr 5]
Það eru tvær sýningar í boði til viðbótar og miðinn kostar 4500 kr. Þú færð miðann hér.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.