Í fyrramálið er síðasta tækifærið til að kynna sér starfsemi HiNT háskólans í Noregi en fulltrúar skólans hafa verið á ferð og flugi um Ísland að kynna háskólanám í tölvuleikjahönnun og margmiðlun.
Þetta er þriðja árið í röð sem að fulltrúar háskólans koma til landsins að kynna námið en nú þegar eru yfir tuttugu íslenskir nemendur við háskólann.
Ekkert sambærilegt nám er í boði á Íslandi og hafa Íslendingar sýnt náminu mikinn áhuga. Norskt háskólanám er ókeypis ef frá eru talin 12.000 króna annargjöld. Nám af þessu tagi hleypur víða annars staðar á milljónum króna.
HiNT háskólinn er vel tækjum búinn og kennarahópurinn er alþjóðlegur og býr yfir margra áratuga reynslu af svo til öllu sem tengist bæði tölvuleikjahönnun og margmiðlunartækni. Nemendur fá að nokkru marki að velja sér áhugasvið og því finna allir eitthvað við sitt hæfi. Meðal viðfangsefna nemenda er þrívíddarteikning, kvikmyndun, ljósmyndun, hljóðvinnsla, forritun, leikstjórn, framleiðsla og ritstjórn, svo nokkuð sé nefnt.
Klukkan 10 í fyrramálið – Föstudaginn 13. mars 2014, verður kynning í Fjölbrautarskóla Suðurlands!
Berglind Sigurjónsdóttir er ein af Íslendingunum sem stundar nám við HiNT háskólann í Noregi.
Berglind er 22 ára Reykjavíkurmær sem útskrifaðist úr Kvennaskólanum í Reykjavík vorið 2012. Hún er nú á fyrsta ári í háskólanum að læra Margmiðlun, kvikmynda og sjónvarpsframleiðslu. Berglind segir að það hafi verið mjög auðvelt að flytja til Noregs það hafi verið tekið mjög vel á móti þeim en hún flutti út ásamt kærasta sínum sem er einnig við nám í HiNT. „Það var afskaplega auðvelt að aðlagast skólalífinu hér og er þetta virkilega skemmtilegt nám en á sama tíma krefjandi “, segir Berglind. Berglind segir námið vera mjög fjölbreytt líka og hefur hún lært heilmikið þó hún sé einungis á fyrsta ári.
„Eitt af skemmtilegu verkefnunum sem ég hef gert var á fyrstu önninni en þá gerðum við stuttmynd sem lokaverkefni þar sem við nemendurnir ákváðum efni myndarinnar og sáum um allt ferlið sjálf. Nú er ég líka í áfanga sem heitir TV technology en þar erum við að taka upp allskonar “live” viðburði og er það rosalega gaman“.
Berglind mælir hiklaust með náminu við HiNT fyrir fólk sem hefur t.a.m. áhuga á margmiðlun. Sjálf segist hún ekki vera með neitt draumafyrirtæki í huga sem hún vill vinna hjá í framtíðinni en hún sér fyrir sér að vinna í sjónvarpi eða við kvikmyndagerð.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.