Laugardagskvöldið 16. mars verður haldið partý eingöngu fyrir einhleypt fólk á aldrinum 25-45 ára.
“Markmiðið er AUÐVITAÐ að reyna að kynnast einhverjum af hinu kyningu og að hafa gaman saman,” Segir Dagbjört Þórðardóttir, skipuleggjandi viðburðarins.
Stendur þú ein á bak við þennan viðburð?
“Heyrðu já ég er ein að sjá um þetta en deili öllu sem er að gerast og hvað skal gera með nokkrum dyggum vinum sem koma einnig með góðar hugmyndir, og jú svo á ég auðvitað frábæra og góða vini sem eru búnir að bjóðast til að aðstoða við hitt og þetta bæði fyrir partýið og á meðan á því stendur.”
Hvernig kom þessi hugmynd til?
„Hugmyndin varð til eitt kvöldið þegar ég allt í einu áttaði mig á því hvað ég á ótrúlega mikið af single vinafólki út um allt. Þá fannst mér ég endilega þurfa að koma þessu fólki undir sama þak í gott partý, nema það átti bara að vera um 30 manns og haldið í heimahúsi. Það sprakk mjög fljótlega, enda átti ég erfitt með að velja hvaða vinum mínum ég ætti að bjóða. Stuttu síðar var þessi viðburður kominn út um allt og fullt af vinum vina minna búnir að skrá sig – sem er bara jákvætt! Þá ákvað ég að leigja sal og dj og gera þetta bara að stóru góðu partýi!“
Hvernig hafa viðbrögðin verið?
“Viðbrögðin hafa verið rosalega góð og ég hef heyrt það frá mjög mörgum hvað svona partý hefur vantað, því ‘deitmenningin’ á þessu blessaða landi er nú ekkert til að hrópa húrra yfir. Vonum að fólk þori nú að stíga fyrsta skrefið þegar svona frábært tækifæri gefst þar sem það þarf enginn að hafa áhyggjur af því að viðkomandi gæti mögulega verið í sambandi. Mikið af fráteknum vinkonum mínum hafa kvartað yfir að þeim sé ekki boðið í partýið, en ég meina… mér er ekki boðið í para/hjónahittinga!”
Hvað finnst þér um íslenska “deit” menningu?
“Mér finnst hún frekar leiðinleg. Það er næstum þannig að ef mann langar til að eitthvað gerist í þessum málum þurfi maður að hrynja í það og fara niðrí bæ eða skrá sig á taggalicious og þannig síður. Tek það fram að ég hef ekkert á móti því að fólk kynnist á þennan máta og ég hef sjálf prófað hvoru tveggja en “pointið” er að við erum flest svo lokuð og feimin að það eru hreinlega engar líkur á því að einhver gangi upp að manni í röðinni í Bónus, á bókasafninu eða í sundi og bjóði manni á deit – hversu rómantískt væri það samt!?”
Svo það sé á hreinu þá ert þú “single”?
“Já ég er single,” 🙂
Eitthvað að lokum?
“Mig langar til að bjóða alla singles á aldrinum 25-45 ára velkomna. Partýið verður haldið laugardaginn 16. mars í sal Pumping Iron, Dugguvogi 12, kl 20-01.”
HÉR er hægt að lesa nánar um viðburðinn en skráning fer fram á facebook.
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.