Magnús Magnus Magnússson heitir ekki aðeins sérstöku nafni heldur lifir hann líka nokkuð sérstöku lífi.
Magnús ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur en býr nú í Brentwood í Los Angeles, nokkurskonar vesturbæ LA. Hann hefur ferðast til sextíu landa og virðist alltaf ná að lenda í ótrúlegum ævintýrum hvert sem hann fer.
Hvað hefur þú búið lengi í Bandaríkjunum og hvað varð til þess að þú fluttir þangað fyrst?
Ég hef búið í Los Angeles í sjö ár en ég átti heima í Washington þegar ég var yngri. Ég hef alltaf vitað að ég vildi fara í háskóla í LA, það var aldrei spurning. USC er besti háskóli í heimi fyrir þá sem vilja vinna í skemmtanabransanum. Vanalega sækja Bandaríkjamenn um nám í um það bil sex til tólf háskólum en ég sótti bara um í USC. Ef þú veist hvað þú vilt hvers vegna ættir þú að gera eitthvað annað?
Hvaða land er í uppáhaldi hjá þér og af hverju?
Hong Kong og Brasilía – ég elska bæði löndin en af mismunandi ástæðum.
Brasilía er í uppáhaldi af því það er hamingjusamasti staður sem ég hef nokkru sinni verið á, meira að segja þegar fólk býr við fátækt. Fólkið þar veit alveg hvernig á að skemmta sér, hvort sem það er með konum, áfengi eða á ströndinni. Þrír hlutir sem í raun kosta ekkert eða lítið en geta fært manni svo mikla gleði!
Hong Kong er svo aftur á móti í uppáhaldi af því að það er einn af þróuðustu stöðum sem ég hef heimsótt – allt virkar fullkomlega. Borgin lítur líka út alveg eins og maður býst við, eins og blanda af London og Kína.
Í hvaða landi er hægt að fá besta matinn og hvar er besta skemmtanalífið?
Af því að ég er grænmetisæta og fíla sterkan mat þá finnst mér langbesti maturinn fást á Indlandi, en þar er ekki margt annað sem telst best. Það skiptir ekki máli hvort að þú borðar mexíkóskt, indverskt eða ítalskt, á öllum stöðum er maturinn svo vel gerður og ódýr! Ég verð að segja að á öllum mínum ferðalögum á ég enn eftir að kynnast betra næturlífi en því sem gerist í Reykjavík.
En ef þú fílar að láta sprauta yfir þig úr kampavínsflösku á snekkju þá mæli ég með Saint Tropez – það kostar bara svipað mikið og næturlífið á Íslandi!
Annars lenti ég líka í frekar fyndnu atviki í Mónakó fyrir nokkrum vikum. Ég var á einhverjum bar og var að reyna að panta mér drykk á barnum en það var alltaf einhver gaur við hliðina á mér hoppandi upp og niður og dansandi eins og ég veit ekki hvað. Ég sneri mér að honum og ætlaði að segja honum að gjöra svo vel að slaka aðeins á. Þá sá ég að þetta var sjálfur Bono. Ég ákvað þá að sleppa því að hella mér yfir hann. Hann hefði nú hvort sem er örugglega ekkert séð mig þarna í myrkrinu því að hann var með svo gífurlega stór sólgleraugu!
Hvert er mesta ævintýri sem að þú hefur lent í á ferðalögum þínum?
Það var þegar ég var að taka upp fyrsta þáttinn í ferðaþáttaseríu sem ég var að gera. Þáttaserían heitir Vagabond sem þýðir bókstaflega flakkandi róni en mér finnst það lýsa mér á smá skemmtilegan hátt. Það er enn verið að vinna í því að koma seríunni í sýningu þar sem hlutirnir taka frekar langan tíma í Hollywood. Í þessu tilviki var ég í Ísrael, Palestínu og Egyptalandi árið 2010. Ég lenti í því að vera tekinn í yfirherslu í tollinum, var látinn fara úr öllum fötunum – þrisvar sinnum! Í sömu ferð var ég líka settur á bannlista og átti ekki að komast í flug. Ég þurfti að múta egypska útlendingaeftirlitinu til að komast yfir landamærin án vegabréfsáritunar svo að ég kæmist aftur til Bandaríkjanna með allt myndefnið sem að ég hafði meðferðis.
Safnar þú einhverjum minjagripum frá stöðunum sem þú ferðast til?
Ég ætlaði mér aldrei að gera það en ég sit uppi með nokkuð stórt hattasafn eftir öll ferðalögin mín. Ég reyni alltaf að finna asnalegasta hattinn og geng með hann á hausnum allt sem ég fer, t.d. hatta sem eru kallaðir rice paddy í Kína eða geng með túrban í Indlandi. Svo er bara gaman hvað heimafólkið virðist meta húmorinn sem fylgir þessu.
Ef að þú fengir frían flugmiða hvert sem þú vildir, svo lengi sem það væri staður sem að þú hefur aldrei komið á áður, hvert myndir þú ákveða að fara?
Mig langar mjög mikið að fara til Norður-Kóreu og Azerbaijan. Vissir þú til dæmis að Azerbaijan er hluti af Evrópu? Nei, ekki ég heldur þar til ég horfði á Eurovision í Baku. Ég velti því fyrir mér hversu mikill peningur fór í að láta það gerast!
Núna hefur þú líklega farið í nokkuð mörg löng flug og þurft að bíða lengi á flugvöllum. Ertu með einhverjar sérstakar leiðir sem að þú notar til að þola biðina?
Ég byrja yfirleitt bara á því að fá mér í glas á flugvellinum og í vélinni. Annaðhvort sofnar maður bara eða eyðir tímanum í að spjalla við algjörlega ókunnugt fólk og hver veit hvað þú gætir lært af því!
Seinasta starfið þitt var hjá Ellen DeGeneres í spjallþættinum hennar sem PA (Production Assistant). Í hverju fólst sú vinna og hvernig fékkstu hana?
Ég starfaði sem aðstoðarmaður framleiðanda, svo ég hljóp í öll verk. Ég fór á margar verðlaunaafhendingar, gerði allskonar gabb í fólki, fór yfir aðdáendabréf og valdi út mögulega gesti til þess að koma fram í þættinum.
Hvað er það skemmtilegasta sem að þú hefur unnið við eða þurft að gera í tengslum við vinnuna?
Það var í eitt skipti þegar Cody Simpson kom í þáttinn til Ellen. En hann er 15 ára gamall ástralskur poppsöngvari sem lítur nákvæmlega eins út og ég. Fyrir þáttinn var ég að hlaupa út um allt til að klára ýmislegt vegna vinnunar en þá kemur allt í einu umboðsmaðurinn og byrjar að öskra á mig, “Hvað ertu að gera?!” Ég hélt að ég hefði gert eitthvað rangt þar til hann áttaði sig á því að ég væri ekki Cody. Hann fór svo með mig í búningsklefann hans Cody og tók mynd af okkur saman og Ellen setti þá mynd á Instagram sitt. Það var smá skrítið að fá um það bil 25.000 “likes” á mynd af sér og að lesa athugasemdirnar við myndina er drepfyndið.
Er það draumurinn að halda áfram að vinna í skemmtanabransanum?
Ég ólst upp í þessum bransa því að pabbi minn vann við þetta. Ég vissi alltaf að þetta væri mín leið í lífinu en það var ekki fyrr en núna á síðustu árum sem áhugi minn á sjónvarpsframleiðslu fór að vaxa.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.