Á dögunum hitti ég Maggý Mýrdal sem á og rekur fyrirtækið Fonts
Hjá Fonts er að finna ein flottustu skilti sem til eru hér á landi með undurfögrum textum eða sniðugum setningum. Skiltin koma í mörgum litum og er vöruúrvalið alveg ótrúlega mikið og gott en mig langaði að vita aðeins meira um listakonuna Maggý svo ég lagði nokkrar spurningar fyrir hana.
Hver er Maggý?
Ég er fædd í Reykjavík og er 34 ára. Fjölskyldan mín er samheld og góð en ég á yndislegan mann hann Magnús Ver Magnússon og eina 15 ára gamla stelpu sem heitir Sóldögg. Sóldögg er mikil listakona og það er ferlega gaman að fylgjast með henni og sjá hugmyndaflugið hjá henni verða að veruleika. Svo var ég einstaklega heppin að eignast tvær æðislegar stjúpdætur þær Veru Mist og Maríönnu. Hönnun og listsköpun hefur alltaf verið ofarlega í mínum huga, ég fór í listnám (The Art Institude of Philadelpiha) í Bandaríkjunum og lærði þar grafíska hönnun. Einnig hef ég málað mikið í gegnum árin og stefni á sýningu í byrjun sumarsins. Svo það er margt spennandi í gangi.
Skiltin þín eru svo skemmtileg og flott – hvenær byrjaðirðu á því að hanna skilti?
Ég byrjaði með Fonts fyrir fjórum árum en ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fallegum textum og blandaðri tækni. Góður boðskapur á vegg er líka góður heilaþvottur og eykur upp jákvæðnina í manni. Fyrir rúmum tveimur árum síðan byrjaði ég að mála á skilti á íslensku og selja þau. Fljótlega urðu þau mjög vinsæl og fannst mér góð hugmynd að leyfa öðrum að njóta skiltagerðar að ég ákvað að fara út í kennslu og halda námskeið fyrir alla sem vilja læra fallega skiltagerð. Enda bæði skemmtilegt og fallegt að eiga verk eftir sjálfa sig upp á vegg.
Eru einhver skilti eða setningar í uppáhaldi hjá þér?
Ljóðið hans Gísla á Uppsölum er í sérstöku uppáhaldi hjá mér, en ég las bókina um hann fyrir rúmu ári og fannst hún í senn bæði falleg og sorgleg. Ljóðið hljómar svona: Ljúfi drottinn lýstu mér, svo lífsins veg ég finni, láttu ætið ljós frá þér, lýsa í sálu minni. Bókin um hann Gísla ætti að mínu mati að vera skildulestning í grunnskólum landsins því það má alveg minna okkur á að við þurfum ekki að eiga allt það flottasta og dýrasta til að kunna að meta lífið. Þessi bók fær mann til að hugsa segir Maggý hugsi.
Hefurðu verið að setja setningar eða orð á húsgögn?
Já það kemur svo vel út og geri ég mikið af því. Fallegt er að setja setningar og munstur á stólbök, skápa, skúffur, bakka eða bara hvað sem manni dettur í hug. Það breytir húsgagninu á augabragði og setur smá Vintage útlit og aukinn persónuleika á húsgagnið.
Ertu hrifin af nútímalegri eða blandaðri hönnun þegar kemur að heimilinu þínu? Helst vil ég blanda öllu saman, ég er ofsalega hrifin að sérstökum húsgögnum og munum sem eru einstök. Er dugleg að þræða Góða hirðinn og er gjörsamlega heilluð af hlutum með sál eins og sagt er.
Áttu þinn uppáhaldsstað á heimilinu þínu? Borðstofuborðið er sá staður sem allir í fjölskyldunni safnast saman en annars eyði ég miklum tíma í vinnuskúrnum mínum. En í raun eru allir staðir í húsinu mínu uppáhalds..það er svo góður andi hérna inni.
Hvað gerir þú til að fá innblástur í hönnun þína? Náttúran veitir mér mikinn innblástur, daglega fer ég í göngutúra með hundana mína og finn oft eitthvað úr náttúrunni á leiðinni sem ég vinn svo með, finnst einhvernveginn að það sé hægt að breyta öllu í eitthvað fallegt.
Ef mig langar til að kaupa skilti af þér, hvernig ber ég mig að því? Hægt er að skoða mikið af mínum verkum á heimasíðunni www.fonts.is en Facebook síðan mín er virkust, þar pósta ég inn myndum daglega, gef góð og skemmtileg ráð og hugmyndir. https://www.facebook.com/fontskompany
NÁMSKEIÐ Í SKILTAGERÐ
Maggý er með æðislega skemmtileg námskeið í skiltagerð og stenslum.
“Stelpurnar sem hafa mætt á námskeið hjá mér verða alveg hissa á því hvað þær eru klárar. Það geta allir gert dásamleg skilti og það er bara gaman eiga skemmtilega kvöldstund með öðrum. Allir fá tvö skilti til að búa til, málningu, stensla og umsögn. Þegar námskeiðinu líkur er alltaf hægt að panta fleiri stensla og halda áfram heima hjá sér. Nokkrar sem hafa komið til mín hafa búið til skilti sem gjafir, en það er frábær hugmynd, bæði persónuleg og falleg. Á námskeiðinu fer ég einnig inn á litaval og gef góð ráð um hvernig hægt er að nýta stensla, mála húsgögn og aðra munir til að gera hverja mublu alveg einstaka. Nýjir hlutir geta orðið eins og gamlir munir, fullir af sögu og karakter – sömu aðferð er beitt á eldri muni líka og það er áræðanlegt að sá hlutur sem er breyttur verður að fallegustu mublu heimilisins,” segir Maggý sem fer um allt land. “Þá held ég námskeið fyrir hópa, saumaklúbba eða vinnustaði. Stemningin er alltaf góð og allir fara heim með falleg skilti og kunnáttu til að halda áfram heima fyrir”.
Svo er ég líka með barnanámskeið en þau eru mjög vinsæl og þrælmikið fjör hjá okkur krökkunum. Námskeiðið er fyrir börn á aldrinum 6-10 ára og svo önnur fyrir 11-14 ára. Hvert barn gerir eitt skilti og geta þau valið úr barnavísum eða textum með herbergisreglum. Á námskeiðinu ræðum við barnavísurnar sem flest allir þekkja, hlustum á vísurnar og höfum mikið fjör.
En er hægt að kaupa setningar eða orð (stensla) og búa til sín eigin skilti heima? Já að sjálfsögðu, eftir námskeiðið fer hugurinn á fullt og þá langar mörgum að halda áfram. Svo þá er auðvelt að senda mér hugmyndir og ég hjálpa svo til við að útfæra textana og búa til stenslana fyrir viðkomandi.
Best er að senda mér póst á fonts@fonts.is til að skrá sig á námskeið eða panta sérstaka stensla segir Maggý hress og kát og við þökkum henni kærlega fyrir að fá að kíkja aðeins inn í líf hennar.
Undirrituð fór einnig námskeið hjá henni Maggý, bara til að prufa skiltagerð og þetta kvöld var alveg dásamlegt. Á námskeiðinu mátti ég velja um tvær týpur af skiltum og setningum. Aðstaðan er ferlega góð en Maggý er með flotta og rúmgóða vinnustofu þar sem námskeiðin eru haldin. Þetta var alveg ferlega gaman, einfalt og ótrúlega sniðugt hvernig hún vinnur með textana og kemur þeim frá sér á flottan hátt. Við vorum nokkrar konur á námskeiðinu og get ég fullyrt að við höfðum allar mjög gaman að. Enda andrúmsloftið létt og þægilegt, Maggý sjálf er opin og hlý persóna og það smitar sér í andrúmsloftið svo úr verður skemmtileg og skapandi kvöldstund.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.