Jóhanna Methúsalemsdóttir hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir skartgripahönnun sína undir nafninu Kría en nýverið var hún útnefnd listakona Baileys ásamt þeim Söru Riel og Andreu Maack.
Jóhanna hefur verið búsett í New York undanfarna áratugi en nú er von á henni til landsins þar sem verk listakvennanna verða sýnd á Kjarvalsstöðum og verður opnunin næsta fimmtudag.
“Mér finnst þetta spennandi enda alltaf gaman að fá viðurkenningu eftir mikla vinnu,” segir Jóhanna sem jafnframt mun kynna nýja þorskalínu, COD II, í versluninni Aurum á föstudaginn.
VINNUR MEÐ DÓTTUR OG VINKONUM
Innblásturinn að Kríu hefur sterka tengingu við náttúruna en hönnunin er oftar en ekki tengd dýrabeinum:
“Þetta tengist allt meira eða minna náttúrunni. Ég finn eitthvað sem mér finnst fallegt og finn svo leið til að skreyta mig með því án þess að það líti út eins og ég sé bara með eitthvað tré hangandi á mér. Þegar vel er að gáð er mjög mikið af fallegum formum út um allt í náttúrunni, það þarf bara stundum að horfa vel og taka það úr sínu eðlilega umhverfi. Um leið og það er gert verður hluturinn að einhverju allt öðru, til dæmis fallegum skartgrip.”
Jóhanna hefur fengist við annað en skartgripahönnun því hún hannaði gríðarstóran snák fyrir síðasta Nordic Fashion Bienalle. “Hann var líka til sýnis í Hafnarborg fyrr á árinu,” segir Jóhanna og bætir við að hún hafi áhuga á að vinna fleiri slík verkefni.
Þau sem hafa fylgst með störfum Jóhönnu hafa tekið eftir að hún vinnur mikið með dóttur sinni Indiu sem er fyrirsæta móður sinnar fyrir Kríu. Elísabet Davíðsdóttir, New York búi, ljósmyndari og fyrirsæta hefur svo séð um myndatökur fyrir Kríu en Jóhanna segir dóttur sína sinn mesta innblástur:
“India yndið mitt er mitt ‘muse’ þar sem mér finnst hún í alla staði falleg og er stolt af því að fá þann heiður að nota hana fyrir Kríu. Elísabet Davíðs tekur allar myndirnar og það er alveg frábært, hún er rosalega góður ljósmyndari, góð vinkona og það er svo auðvelt að vinna með henni. Við skiljum hvor aðra svo vel. Andrea Helgadóttir gerir yfirleitt allt make-up nema síðast, þá gat hún ekki verið með,” segir Jóhanna en Andrea er m.a. þekkt fyrir að hafa séð um förðun Bjarkar Guðmundsdóttur.
Að lokum segir Jóhanna sitthvað vera í farvatninu fyrir næstu misseri en hún lumar meðal annars á nýrri línu.
“Svo eru einhver verkefni framundan sem er of snemmt að tala um en mjög spennandi. Helmut Lang var líka að panta frá mér fyrir Bandaríkja og Bretlandsmarkað og það verður eitthvað skemmtilegt hóf í kringum það hér í New York í byrjun desember. Annars er það bara að halda áfram…”
Föstudaginn 16 nóvember verður sérleg kynning á Kríu í Aurum milli kl 16-18 . Boðið verður upp á Baileys, Grand Mariner og Johnny Walker.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.