Inga Maren Rúnarsdóttir er 32 harðgiftur atvinnudansari hjá Íslenska Dansflokkunum. Henni finnst gott að fara í sund til að slaka á og hún er alveg sjúk í jóga.
Er eitthvað ákveðið sem þú gerir alltaf fyrir sýningu: Nei ekkert sérstakt þannig, bara passa að vera búin að borða eitthvað gott og drekka nóg af vatni, sérstaklega fyrir sýningar sem reyna mikið á þolið þar sem það er ekki alltaf hægt að fá sér vatnssopa á milli atriða.
Hvenær byrjaðir þú að dansa: Ég var lítil þegar ég byrjaði en alvaran kom seinna.
Hvað heillar þig mest við dansinn og hvers vegna: Maður getur fengið alveg brjálaða útrás og algjörlega gleymt stað og stund. Því eldri sem maður verður virðist það verða erfiðara verkefni í lífinu svo það er gott að dansa svolítið reglulega.
Hvað áhrif hefur dansinn á þig tilfinningalega: Það fer algjörlega eftir verkum. Hvert og eitt verk kallar á mismunandi tilfinningar svo það er gott að hafa reynt eitt og annað í lífinu til þess að eiga nóg til í pottinum fyrir mismunandi hlutverk.
Stundarðu einhverja aðra líkamsrækt eða íþróttir: Ég fer reglulega í jóga. Ég er sjúk í Yoga Shala.
Þarftu að huga sérstaklega að mataræðinu: Ég reyni að hafa ekki hömlur á mataræðinu mínu en mér finnst bæði nauðsynlegt og gott að borða holla fæðu sem gefur mér orku í stað þess að ræna mig henni. Ég fíla ekki að borða eitthvað sem inniheldur mikið af aukaefnum. Hrein fæða er málið.
Hvernig getum við eflt dansmenninguna á Íslandi:
Kannski bara dansa meira sjálf…? Hér er innblástur sem hentar öllum:
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=BiAwpYIkRmU[/youtube]
Hver er uppáhalds danshöfundurinn þinn og dansverk: Ég get ekki sagt að það sé einn sem vinnur þessa keppni en þessum hef ég verið hrifin af lengi.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=Kc6TZ7jsojc[/youtube]
Danshöfundurinn heitir Hofesh Shecther, er frá Ísrael en vinnur í London. Þegar ég bjó þar sá ég þetta verk (Uprising) og heillaðist algjörlega. Í þessu vídjói er einn dansari sem var einmitt með mér í bekk í skólanum í London.
Á maður að skilja samtímadans eða er þetta meira spurning um að upplifa: Það fer bara eftir hverjum og einum. Læsi á dans er töluvert minna en á aðra miðla. Fólk er almennt óvanara að horfa á danssýningar heldur en til dæmis að fara á myndlistasýningar. Þar veit það betur hvað það á að gera, skilja eða ekki skilja. Fólki finnst í lagi að túlka málverk á mismunandi máta og það má alveg líka með dansinn.
Hvaða þýðingu hefur nútímadans fyrir þig: Það getur verið allt frá því að sitja við fjölfarna götu og horfa á mynstur sem myndast þegar fólk gengur um eða brjálæðislega tæknilega flókið dansverk….
Hvert er uppáhalds atriðið þitt í BLÆÐI: obsidian pieces: Það er lítill kafli í Black Marrow sem við köllum “earthquakes” sem mér finnst mjög skemmtilegur. Hann er bæði flottur og mjög krefjandi.
Frumsýningin er 19. Maí og svo tvær aðrar sýningar 25. Maí og 28. Maí – Hvað svo: Næsta verkefni er í Hörpunni, verkið “Á vit…” með Gus Gus í sumar. Svo ætlum ég og maðurinn minn að vera dugleg að fara og veiða í vötnum landsins í sumar og njóta íslenskrar náttúru eins og hún gerist best.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.