Hörður Ellert er ljósmyndari sem nýlega vakti athygli fyrir að fá vinnu hjá Henrik Vibskov, virtasta tískuhönnuði Dana.
Hörður er þó enginn nýgræðingur í ljósmyndun með 10 ára reynslu að baki en ákvað skyndilega að fara í framhaldsnám hjá KaosPilots í Aarhus í Danmörku.
Það var fyrir tveim árum á LUNGA að leiðir Harðar og Henrik Vibskov lágu saman en Henrik hafði svo heillast af vinnu hans að úr varð að hann bauð Herði vinnu.
Hörður er á ferð og flugi með Henrik Vibskov teyminu þessa dagana en ég fékk hann þó til að svara nokkrum spurningum:
Hvað kom til að þú gerðist ljósmyndari?
Ætli það hafi ekki verið þegar elsku faðir minn lánaði mér gamla Canon AE1 filmuvél fyrir nokkrum árum þegar ég fór til Ítaliu. Í kjölfarið tók ég á yfir 100 filmur yfir sumarið og síðan hef ég ekki getað hætt að mynda.
Hvað finnst þér skemmtilegast að mynda?
Það getur verið svo margt. Mér finnst mjög gaman í krefjandi myndatökum þar sem undirbúa þarf allt vel fyrirfram. Það getur verið allt frá tískymyndatökum, matarmyndatökum, yfir í götu-, náttúru-, mannlífs- og tónleikamyndatökur. Að vinna með góðu teymi að slíkum verkefnum er mest gefandi og ekki skemmir fyrir ef því fylgja ferðalög.
Hvaða ljósmyndari hefur haft mest áhrif á þig?
Þeir eru rosalega margir, ljósmyndararnir sem hafa haft áhrif á mig. Til dæmis David La Chapelle og Richard Avedon. Nick Brandt er líka mjög fær í portrett myndum af dýrum. En það eru ekki bara ljósmyndir og ljósmyndarar sem hafa áhrif á mann. Það getur verið grafík, tónlist, efni, áferðir, matur, samskipti og í raun hvað sem er.
Áttu þér eftirlætis ljósmynd?
Það er ein mynd eftir Nick Brandt sem er ótrúlega mögnuð, portrett mynd af Afríkufíl við vatnsból. Uppbygging myndarinnar er svo stílhrein og simitrísk að það lítur helst út fyrir að hún hafi verið tekin í stúdíói en það var þó ekki. Tilfinning og andrúmsloft myndarinnar er svo rosalegt að það er eins og maður nái að skyggnast inn í líf dýrsins eitt sekúndubrot. Við unnusta mín vorum svo heppin að fá að sjá þessa mynd í stóru prenti í Fotografiska ljósmyndasafninu í Stokkhólmi í fyrra sem var frábær upplifun.
Lifir þú á því að mynda?
Já, hef gert það í um tíu ár með mismiklum árangri 🙂
Hvað finnst þér um forrit eins og Instagram?
Það er bara gaman að þeim, ég nota Instagram helling þegar ég er á flakki og að bardúsast eitthvað. Það eru náttúrulega engin gæði í þessum myndum en fjölskyldan og vinir geta fylgst með því sem maður er að bralla þegar maður er á ferðalögum. Þetta er líka skemmtilegri leið til að deila heldur en að setja status update á facebook.
Notarðu stundum gömlu aðferðina, myrkraherbergi, filmur?
Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki gert það í nokkur ár. Ég á litastækkara, pappír og allt settið sem þarf til og einhvern tíman í framtíðinni þegar við Eydís verðum orðin rótgróin einhvers staðar væri gaman að setja upp myrkraherbergi og fara aftur í „oldschool“ aðferðina.
Draumaverkefnið?
Ég er nú þegar að vinna í einu af draumaverkefnunum mínum, það er að segja að vinna hjá Henrik Vibskov í grafík og ljósmyndum. Ótrúlega góður vinnustaður með frábæru samstarfsfólki og góðum anda. Verkefnin eru bæði krefjandi og skemmtileg og svo skemmir ekki fyrir að það fylgir þessu þátttaka í fjölbreyttum viðburðum eins og tískuvikum, listsýningum, gjörningum og mikið af ferðalögum. Við vorum til dæmis þar-síðustu helgi í Berlín þar sem Gestalten útgáfufyrirtækið var að gefa út bók á heimsvísu um síðustu 10 ár í listum Henriks, ég var meðhönnuður bókarinnar og átti nokkrar myndir í henni. (Þess má geta að Henrik Vibskov er eini skandínavíski hönnuðurinn sem er á aðaldagskrá Paris Fashion Week)
Ætli það væri ekki líka gaman að ferðast um heiminn á framandi slóðir að taka náttúru- og mannlífsmyndir. Verkefni með ævintýrum og nýjum upplifunum eru alltaf draumaverkefni.
Hvaða lífsreglum lifirðu eftir?
Að njóta augnabliksins, vera vinur vina minna, reyna að hafa gaman að hlutunum og leita uppi ævintýri.
Hvað er næst á dagskrá hjá þér?
Ég er staddur í Suður Afríku að hjálpa til við að koma á laggirnar hönnunar- og nýsköpunarmiðstöð í tengslum við “Cape Town World Design Capital 2014”. Verkefnið er í samstarfi við CPUT háskólann og borgaryfirvöld, auk ýmissa aðila í viðskiptalífinu. Þetta er mjög spennandi verkefni og ótrúlega öflugt teymi af Kaos Pilotum sem ég er að vinna með.
Við þökkum Herði fyrir að gefa okkur smá innsýn inn í líf sitt og spennandi verkefni, hér fylgir svo myndasafn með myndum hans og innblæstri:
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.