Gunni og Kolla eru sjóuð í tískubransanum og hafa þar tekið óteljandi túra. Tískan er eins og vertíð, vor/sumar, haust/vetur og allir litlu túrarnir þar á milli, jól, “resort”, pre-fall, pre-spring…
…það er aldrei lognmolla í tískubransanum og það þekkja þau af eigin raun.
Við munum eftir þeim Gunna og Kollu frá því í GK og síðar sem forsprakkar fatamerkisins Andersen & Lauth og nú síðast frumsýndu þau nýtt merki sitt Freebird.
Freebird er í anda þess sem þau gera best, fallegur, klassískur kvenfatnaður með rómantísku ívafi. Það var mjög passandi að frumsýna Freebird línuna í fornu og fallegu húsi – Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu þar sem ungar ballerínur opnuðu sýninguna með því að deila út litlum skilaboðum um ástina.
En hvað er á bakvið fólkið, forvitin um líf þeirra, innblástur og smekk sendi ég þeim nokkrar spurningar sem þau samviskusamlega svöruðu.
Gunni
Áttu uppáhalds hönnuð? Albert Elbaz hjá Lanvin, algjör snillingur.
Flottasta fyrirmyndin? Ég ætla að segja það fyrsta sem mér dettur í hug. David Beckham. Fyrir það að vinna meira og lengur en aðrir þrátt fyrir mótlæti. Hann segir mér að agi, skipulag og dugnaður komi þér þangað sem í vilt fara.
Uppáhalds tímasóunin? Að spila á gítar.
Hvað er næsta tilhlökkunarefnið í lífi þínu? Að klára törnina sem ég er í að teikna haust 2013 af Freebird og E-label og geta tekið frí með fjölskyldunni.
Hvaða 5 lög eru í uppáhaldi hjá þér núna? Teddy Picker með Arctic Monkeys, Fake Plastic Trees með Radiohead, Glow með Retro Stefson, Cold Water með Damien Rice og Faðir Andanna með Ellen & KK.
Nefndu 5 uppáhalds bíómyndirnar þínar: Betty Blue, Steiktir Grænir Tómatar, Amelie, Holiday og Big Lebowski.
Áttu auðvelt með að sofna á kvöldin eða hugsarðu of mikið? Á yfirleitt auðvelt með að sofna. Er nefnilega yfirlett algerlega búinn að tæma tankinn.
Hefurðu séð draug, álf eða geimveru? Ég verð oft var við að einhverjir sem ég sé ekki eru í kringum mig. Finnst það bara vinalegt. Eru örugglega þar í góðum tilgangi. Álfa eða geimverur hef ég hinsvegar ekki hitt en held að hvorutveggja sé til.
Í hvaða stjörnumerki ert þú? Ég er ljón, algerlega týpiskt ljón. Reyndar munar eingum degi að ég sé meyja..
Hefurðu verið ástfangin af poppstjörnu? Nei, gæti aldrei orðið ástfangin af einhverjum sem ég þekki ekki. Ég þekki reyndar slatta af poppstjörnum en sem betur fer ekki fallið fyrir þeim enda einstaklega vel giftur.
Hvaða mistök gera pör helst í samböndunum sínum? Að gleyma hvort öðru í hraða lífsins, það má ekki.
Hvað er skemmtilegast við það sem þú ert að gera núna? Að fá að búa til fallega hluti.
En erfiðast? Að þurfa alltaf að vera betri í dag en í gær.. miklar kröfur.
Hvaða kaffihúsi/veitingastað viltu mæla með? Súfistinn er okkar staður
Hvaða starf myndirðu velja þér ef þú værir ekki að gera það sem þú ert að gera núna? Ég væri til í að vera leikari!
Hvað ertu að fara að gera á eftir? Teikna nokkrar flíkur á meðan að einhver orka er eftir. Spila síðan aðeins á gítarinn, fer síðan að sofa enda klukkan 0.40 þegar þetta er skrifað.
Að lokum: Heilræði til okkar hinna? Gerðu það sem hjartað segir þér og aldrei gefa afslátt af sjálfum þér. Aldrei.
Kolla
Áttu uppáhalds hönnuð? Christopher Bailey hjá Burberry og Hedi Slimane sem er núna kominn til YSL. Snillingar á sínu sviði.
Flottasta fyrirmyndin? Allir þeir sem hafa hugrekki og þrautseigju til að láta drauma sína rætast.
Uppáhalds tímasóunin? Bloggsíður….og tumblr síður
Hvað er næsta tilhlökkunarefnið í lífi þínu? Næsta dags með fjölskyldunni.
Hvaða 5 lög eru í uppáhaldi hjá þér núna? Angel með Robbie Williams, You are so beautiful með Joe Cocker, Mad World, útgáfan með Adam Lambert, Autumn Leaves með Evu Cassidy, Freebird með Lynard Skynard
Nefndu 5 uppáhalds bíómyndirnar þínar: Allar þær myndir sem flokkast sem ” feel good ” myndir.
Áttu auðvelt með að sofna á kvöldin eða hugsarðu of mikið? Já mjög auðvelt, sofna um leið.
Hefurðu séð draug, álf eða geimveru? Hef ekki séð neitt af þessu en trúi á tilveru álfa og huldufólks og hef fundið fyrir nærveru einhvers…
Í hvaða stjörnumerki ert þú? Tvíburi
Hefurðu verið ástfangin af poppstjörnu? Nei, er allt of jarðbundin í það…
Hvaða mistök gera pör helst í samböndunum sínum? Að gleyma hvernig þeim leið þegar þau hittust fyrst.
Hvað er skemmtilegast við það sem þú ert að gera núna? Að hafa tækifæri og möguleika að búa til fallega hluti með hjartanu
En erfiðast? Að þurfa að setja punktinn einversstaðar og hætta að skapa haustlínuna 2013 sem er í gangi núna.
Hvaða kaffihúsi/veitingastað viltu mæla með? Súfistinn, Iða eða Te & Kaffi. Við erum 101 fólk. Núna er það Iða þar sem aðstaðan er best þar fyrir lítil kríli.
Hvaða starf myndirðu velja þér ef þú værir ekki að gera það sem þú ert að gera núna? Ég ætlaði alltaf að verða lögfræðingur…
Að lokum: Heilræði til okkar hinna? Láttu drauma þína rætast og vertu samkvæm/ur sjálfum þér.
Hér að neðan má sjá brot úr nýjustu línu Freebird og hér (linkur) má forpanta útvaldar flíkur og fá sent heim til sín fyrir jólin!
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.