Jóhann Ævar Grímsson heitir ungur handritshöfundur í Reykjavík sem einna þekktastur er fyrir aðkomu sína að Vaktaseríunni svokölluðu.
Hvernig kom það til að þú fórst að skrifa?
Mér er bara ekki sjálfrátt, ég verð að segja sögur og hef verið þannig síðan ég var lítill. Þegar ég fattaði síðan að bíómyndir þurfa handrit þá fannst mér ég hafa fundið draumadjobbið.
Við hvað ertu að fást núna?
Eins og stendur er ég að vinna með Margréti Örnólfs að handriti að sjónvarpsseríu eftir þær Nínu Dögg Filippusdóttur og Unni Ösp Stefánsdóttir fyrir Mystery Ísland.
Afar spennandi og krassandi stöff og það sem gleður mig hvað mest er að allar lykilpersónurnar eru konur.
Hver er eftirlætis karakterinn þinn úr Vaktaseríunni?
Ólafur Ragnar, hann er svo dásamlega einfaldur. Gæti skrifað fyrir hann að eilífu.
En Pressu?
Á eftir aðalpersónunni Láru er Nökkvi minn uppáhaldskarakter í Pressu. Það smellur svo fallega í honum í túlkun Kjartans Guðjónssonar að það er hrein ánægja að kokka upp línur fyrir hann.
Hvernig verður skálduð persóna til?
Ég moða vanalega saman brotum af hinum og þessum týpum sem ég hef kynnst á lífsleiðinni, gef afrakstrinum nafn og lýsi síðan útliti. Mesta vinnan er að dikta upp baksögu, langanir og innra líf en það er veigamikið skref í að færa persónuna í þriðju víddina. Síðan er það bara spurning um að henda persónunni í einhverjar aðstæður og sjá hvað hún gerir.
Hvað gerist svo næst… ?
Ætli maður haldi ekki bara áfram að segja sögur… allavega eins lengi og maður hefur eitthvað að segja.
Takk Jóhann Ævar fyrir spjallið…
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.