„Ég er stolt húsmóðir, en ég er það af því ég valdi það og ég er líka ljósmyndari, eiginkona og allt mögulegt annað, segir Katrín Björk sem heldur úti vinsæla lífstíls-matarblogginu, Modern Wifestyle sem getur verið beinþýtt sem nútíma húsmóðurstíllinn.
Hið frumlega nafn á blogginu segir hún standa bæði fyrir konur og karlmenn sem halda falleg heimili, leggja metnað í matargerð og ala börnin sín vandlega upp:
„Því miður hefur titillinn húsmóðir fengið á sig neikvæðan stimpil, sem er eitthvað sem verður að breytast og ég er því afar upptekin af að snúa viðhorfi fólks á húsmæðrum til hins betra.” Bloggið er á ensku og er stútfullt af fallegum myndum og girnilegum mataruppskriftum.
Eftir þrettán ára búsetu í Kaupmannahöfn hefur hún komið sér vel fyrir og starfar við það að blogga, deila matarástríðu sinni, ljósmynda og skrifa. Áhugamál hennar var ekki lengi að vekja áhuga annara miðla út í heimi og hafa henni því boðist ýmis spennandi verkefni í kjölfarið.
Í dag skrifar hún matar – og lífstílsgreinar fyrir ýmsa netfjölmiðla í Bandaríkjunum. Meðal annars Domino, Brit&Co, Embark Magazine og Huffington Post.
„Modern Wifestyle hefur svo sannarlega verið stökkbretti fyrir mig og af því að ég skrifa á ensku hef ég fengið mikla athygli frá erlendum fjölmiðlum og tímaritum.”
En af hverju er matur svona heillandi?
„Ég hef alla mína tíð eldað mikið og hef verið frumleg í eldhúsinu síðan ég var lítil stelpa. Bloggið var upphaflega ætlað sem “portfolio” en svo þegar lesanda talan jókst breyttist það í vinnuna mína.”
Þegar ég uppgötvaði að ég gæti lifað af að blanda mat saman við vinnu mína sem ljósmyndari meikaði heimurinn allt í einu miklu meira sens.
Katrín Björk flutti upphaflega til Kaupmannahafnar til að hefja ljósmyndanám sem undirbúning fyrir kvikmyndanám en eftir fimm ár í kvikmyndabransanum skipti hún um skoðun og einbeinti sér alfarið að ljósmynduninni. Framhaldsnámið sótti hún til í New York en þá borg þykir henni afar vænt um.
Í dag er hún með annan fótinn þar enda er tengslanetið orðið stórt. „Þetta var stórkostlegur tími og afar spennandi að upplifa að ameríski draumurinn er ennþá til. Mér þykir mjög vænt um New York og kalla borgina hiklaust þriðja heimili mitt,” segir Katrín Björk aðspurð út í tímann í Bandaríkjunum.
Nýlega tók hún myndir fyrir bandaríska matartímaritið Bon Appétit.
„Það var markmið sem ég setti mér fyrir mörgum árum. Það var afar ánægulegt að upplifa drauminn rætast og fyrir alvöru komast inn í bransann í Bandaríkjunum”, segir hún þegar hún er spurð út hvaða verkefni hefur staðið upp á þessu lífsferðalagi.
Í nánustu framtíð er von á fleiri gleðitíðindum. Katrín Björk og maki hennar, hinn danski Jens, hafa beðið eftir mikilvægu símtali í fjögur ár. Símtali sem mun umbreyta tilveru þeirra því nú eru þau efst á biðlista eftir barni frá Afríku. Flótlega er von á litlum erfingja í faðm þeirra hjónakorna.
Að lokum deildi Katrín Björk með okkur dásamlegri uppskrift sem þið getið séð hér.
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!