Bergrún Íris Sævarsdóttir er 27 ára myndskreytir og blaðakona á Séð og Heyrt. Hún er vel gift, á þriggja ára strák og er fædd í merki vatnsberans. Við Pjattrófur tókum fyrst eftir Bergrúnu þegar hún hélt úti hinu frábæra hönnunarbloggi Óskalistanum sem flutti síðar yfir á Bergruniris.com.
Margir kannast jafnframt við hana úr þáttunum Innlit Útlit á Skjá einum en nýlega gaf hún út bókina um hundinn Hvata með Evu Þengilsdóttur. Bókin er ætluð börnum á leikskólaaldri og á að stuðla að hreyfingu á skemmtilegan hátt en sæta handbrúðan hvati var gerð í samstarfi við styrktarfélag lamaðra og fatlaðra.
Pjattið vildi hinsvegar forvitnast aðeins um tískuáhuga dömunnar enda hefur hún hingað til verið þekkt fyrir áhuga sinn og vit á innanhúss hönnun.
Hvað er tíska fyrir þér?
Fljótandi og persónubundin, best þegar hún er fjölbreytt og verst þegar hún er harðstjóri og fólk reynir jafnvel að breyta sér til að passa inn í fyrirfram ákveðna formúlu.
Hvaða hönnuðir eru í eftirlæti hjá þér?
Dóra Björk Magnúsdóttir sem hannaði brúðarkjólinn minn. Við erum að vinna aðeins saman í mjög spennandi hlutum núna sem verður gaman að segja frá seinna.
Hvar kaupirðu helst föt?
Ef mig vantar praktísk föt þá fer ég í Smáralind eða Kringluna, en ef mig langar að gera vel við mig og kaupa mér eitthvað sparilegt þá kíki ég á íslenska hönnuði og sætar búðir á Laugaveginum.
Uppáhalds flíkin núna?
Zo-on úlpan mín kemur sterkt inn í kuldanum, svo er ég nýbúin að kaupa dásamlega fallegan bleikan kjól í Topshop sem ég hef enn ekki fundið tilefnið fyrir, en mig grunar að hann verði svolítið uppáhald þegar það fer að hlýna.
Must have í fataskápinn?
Sokkabuxur í öllum regnbogans litum og hlýjar peysur.
Mesta persónulega “fashion fail” hjá þér?
Úff þetta er efni í heila grein. Laxableika 40’s kápan mín var ekki alveg málið og tímabilið þegar ég var alltaf í vesti við hvað sem er var líka pínu skrítið svona eftir á að hyggja.
Hvaða trend finnst þér flottast nú í haust?
Ég er mjög hrifin af sheer víðum bolum og blússum og finnst litapallettan núna einstaklega falleg.
Uppáhalds snyrtivaran í dag?
Bleiki varaliturinn sem ég keypti í Make up store fyrr í sumar fyrir brúðkaupsdaginn minn. Ég nota hann oft sem kinnalit.
Hvaða snyrtivöru kaupirðu aftur og aftur ?
Ég verð alltaf að eiga maskara og er sjaldan maskaralaus enda með næstum hvít augnhár og lít út fyrir að vera veik (eða draugur) ef ég er ekki með eitthvað á augunum.
Galdurinn að góðu útliti?
Að sofa nóg og brosa nóg. Bros getur breytt öllu. Og hattur bjargar alltaf slæmum hár-dögum.
Versta tímabil tískusögunnar?
Neon geðveikin sem gekk hérna yfir fyrir einhverjum 9-10 árum síðan, gúmmíarmbönd í öllum mögulegum litum og támjóir neon skór.
En besta?
40’s! Hnésíðir kjólar sem eru þröngir í mittið, útvíð pils, fallegar kápur og dásamlegar hárgreiðslur. Rauður varalitur og svartur eyeliner til að setja punktinn yfir i-ið. Karlatískan var líka svo flott og allir svo virðulegir og sparilegir.
Hvað langar þig að fá í jólagjöf?
Ég gef sjaldnast uppi hvað mig langar í í jólagjöf og geri aldrei óskalista. Svo lengi sem hugsun hefur farið í að velja gjöfina þá er ég hamingjusöm. En ég skal þó viðurkenna að púðarnir frá Markrún eru mjög fallegir, ég myndi allavega ekki skila einum slíkum eftir jól!
Eitthvað að lokum?
Kaupið bækur fyrir börnin ykkar frekar en dýr merkjaföt. Ef þau eru vel lesin þá vegnar þeim vonandi vel í lífinu og þá geta þau keypt sér dýru merkjafötin sjálf fyrir háu launin sín!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.