Í gær birtum við fyrri fimm atriðin sem þú þarft að hætta strax ef þú vilt verða hamingjusamari í þessu lífi sem okkur er gefið.
Hér eru svo önnur fimm. Um að gera að ígrunda þetta vel og vandlega – og hætta svo bara strax þessari vitleysu!
Hættu…
6. Stjórnsemi
Já, þú ræður, það vitum við. Þú ert skipstjórinn, foringinn, þessi sem færir fjöllin. En hugsaðu samt út í það að eina manneskjan sem þú raunverulega stjórnar ert þú sjálf.
Ef mestöll orkan þín fer í að reyna að stjórna öðru fólki ertu um leið að ákveða að þú og þínir draumar, markmið og jafnvel skoðanir skipti meira máli en þeirra. Er það sanngjarnt?
Athugaðu líka að stjórnsemi dugar í besta falli bara í stuttan tíma í senn þar sem hún krefst þess að þú beitir valdi, þrýstingi, jafnvel blekkingum til að ná þínu fram. Þetta lætur ekki nokkurri manneskju líða sérstaklega vel með sjálfa sig.
Leitaðu uppi fólk sem er á sömu leið og þú sjálf/ur og langar að vera þér samferða. Þau munu leggja meira á sig, skemmta sér betur og eiga í betri og uppbyggilegri samskiptum við þig. Niðurstaðan er sú að allir verða hamingjusamari.
7. Að gagnrýna
Já, þú ert með betri menntun, meiri reynslu, búin að ferðast meira, fara upp á hærri fjallstinda og drepa fleiri dreka.
Þetta gerir þig hvorki betri, gáfaðari eða næmari.
Þetta gerir þig bara að þér: Og þú ert einstök, engum lík, ósambærileg, en alltaf bara þú.
Alveg eins og allir aðrir — líka vinir, vinnufélagar og fjölskylda.
Við erum öll sérstök: hvorki betri né verri en hitt, bara ólík. Lærðu að kunna að meta það að fólk er ólíkt í stað þess að einblína á það sem þér finnst vera gallar þess. Með því byrjar þú hægt og rólega að sjá fólkið og sjálfa þig í mun betra ljósi.
8. Að predika
Systir gagnrýninnar er predikunin og þær eiga sömu móður: Dómhörkuna.
Því hærra sem þú klifrar upp metorðastigann því líklegri ertu til að telja sjálfa þig hafa rétt fyrir þér og þar með öðrum.
En þegar þú talar niður til fólks og reynir að segja því hvernig eigi að gera hlutina og vera í lífinu án þess að hlusta þá líður engum vel í návist þinni. Og ekki þér heldur eftir því sem lengra er haldið.
9. Að dvelja í fortíðinni
Fortíðin er okkur mikilvæg. Lærðu af eigin mistökum. Lærðu af mistökum annara.
Leyfðu henni svo að vera að baki.
Auðveldara sagt en gert? Það fer eftir því hvernig þú lítur á málin. Þegar eitthvað leiðinlegt hendir þig skaltu líta á það sem tækifæri til að læra eitthvað sem þú vissir ekki áður. Þegar önnur manneskja gerir mistök skaltu líta á það sem tækifæri til að vera góðhjörtuð, sýna skilning og reyna að fyrirgefa.
Fortíð okkar er bara æfing: hún segir ekkert um það hver við erum í dag. Veltu því fyrir þér hvað fór úrskeiðis en aðeins til að skilja til fulls hvernig á ekki að bregðast við næst þegar og ef svipaðar aðstæður berja að dyrum.
10. Að óttast
Við erum öll hrædd við það sem á eða á ekki eftir að gerast, við erum hrædd við það sem við fáum ekki breytt, við óttumst hvað við getum ekki gert eða með hvaða augum annað fólk kann að líta okkur.
Þessvegna er alltaf auðveldara að hika, bíða eftir rétta ‘mómentinu’ til að ákveða að við í raun verðum að hugsa málið betur eða kanna fleiri valkosti og á sama tíma líða dagar, vikur, mánuðir og jafnvel heilu árin hjá.
Það sama gerist með draumana okkar. Þeir líða hjá.
Ekki láta óttann aftra þér frá að láta draumana þína rætast og gera hluti sem þig hefur alltaf langað að gera. Byrjaðu á þessu strax í dag.
Hvort sem þig langar að hætta í vinnunni og stofna fyrirtæki, skilja við makann, skrifa bók, opna kaffihús eða tómstundagarð… byrjaðu strax að undirbúa þetta. Taktu fyrsta skrefið. Hættu að óttast og gerðu eitthvað. Hvað sem er.
Annars er þessi dagur liðinn hjá og hann kemur aldrei aftur. Aldrei.
Dagurinn í dag er það mikilvægasta sem við eigum — og í raun það eina í lífinu sem við ættum virkilega að vera hrædd við að sóa í ekki neitt.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.