Smjattrófan ætlaði að gera sér glaðan dag um helgina og fór ásamt vinkonu sinni á Gráa Köttinn við Hverfisgötu en þangað hafði hún ekki komið árum saman.
Grái Kötturinn er agnarsmár staður á Hverfisgötunni. Þar er boðið upp á morgunmat og nokkra létta rétti eins og beyglur og brauð en staðurinn lokar frekar snemma og opnar jafnframt snemma. Verð á matseðlinum er í hærri kantinum en eigendur staðarins útskýra það með því að staðurinn sé það lítill að því borgi sig að hafa verðið hátt þar sem hann taki fáa í sæti.
Gott og vel.
Smjattrófan var búin að láta sig dreyma um steikt egg, ávexti, girnilegt brauð, amerískar pönnsur, grænmeti og góða sósu svona eins og gengur með eðalmorgunverð og hlakkaði til að fá sér í svanginn á Gráa Kettinum en því miður varð reynslan allt annað en gleðileg.
Það sem lá beinast við að panta var diskur með ristuðu brauði, kartöflum, steiktum tómat, spældum eggjum smjöri og beikoni. En þar sem smjattrófan leggur sér ekki beikon til munns bað hún um að hliðrað væri til á disknum og öðru bætt við í staðinn. Henni reiknaðist til að verðgildi beikonsins myndi vera sambærilegt við t.d. eina litla pönnuköku og svolítið af grænmeti en þar fóru samningar í strand. Hún varð að velja bara annað hvort.
Þar sem smjattrófan reynir að jafna tilveruna út með heilsu á móti dekri, og vildi ekki að diskurinn liti út eins og mataræðið ‘fyrir’ í þætti hjá Gillian McKeith, þá vildi hún komast að því hvað það kostaði að fá svolítið meiri hollustu á diskinn.
“Jú, við seljum disk með fimm ostsneiðum á 500 kr,” svaraði afgreiðsludaman.
“En má ég kaupa bara eina?”
“Jú, þá kostar hún 100 kr.”
“En hvað kostar bara smá grænmeti, til dæmis eitt salatblað, hvað kostar það? Og gæti ég fengið smá franskt Dijon sinnep?”
“Salatblað myndi kosta 100 krónur líka,” svaraði afgreiðsludaman. “Sinnepið kostar 200, við seljum það sem sósu”. Smjattrófuna rak í rogastans. Það leit út fyrir að morgunmaturinn myndi kosta það sama og kvöldverður á Holtinu með þessu framhaldi.
“Ertu viss um að þú getir ekki bara gefið mér eins og eina tómatsneið og ostsneið án þess að ég borgi aukalega fyrir það? Ég er jú að sleppa öllu kjöti á disknum?”
“Nei, svona eru bara reglurnar hjá okkur.”
“Já, maður skilur það með hamborgara og pizzustaði að rukkað sé aukalega fyrir viðbótarálegg á pizzu eða borgara, en þetta er kaffihús og ég er að sleppa því sem er dýrast á disknum.”
“Ég ræð þessu ekki,” svaraði aumingja afgreiðslustúlkan sem skiljanlega átti bágt með þessar samningaviðræður þar sem henni var uppálagt að bregðast við eins og starfsmaður hjá hinu opinbera: “The Computer say’s No”.
NIÐURSTAÐA:
Grái kötturinn hefur alla burði til að vera skemmtilegur staður, vel innréttaður og öðruvísi en þeir flestir en verð á matnum er allt of hátt. Samskipti við viðskiptavini eiga heldur ekki að vera á svo vélrænum nótum þegar staðurinn er jafn lítill og raun ber vitni. Jákvæð og skemmtileg framkoma og vilji til að gera vel við viðskiptavini býr til gott karma á veitingastöðum.
Flestir eigendur slíkra staða leggja sig fram um að koma vel fram við viðskiptavini sína en á Gráa Kettinum virðist þetta sem svo að gestum eigi að finnast þeir heppnir að vera komnir á staðinn. Að “fá að borða þarna”. En það er ljóst að svona vélræn og leiðinleg framkoma hvetur smjattrófur ekki til að vilja koma aftur.
Aukinheldur var maturinn ekki sérlega vel framreiddur. Eggin voru lítið steikt, hvít og slímug ósteikt eggjahvíta lak um diskinn og hinn svokallaði ‘steikti tómatur’ sem átti að vera á disknum var tæp matskeið af niðursoðnum tómati úr dós.
Fyrir þetta og einn kaffibolla reiddi Smjattrófan fram 2.330 krónur – og það ekki með glöðu geði. Hefði hún valið að kaupa salatblaðið umrædda, meiri ost en eina sneið og ‘sósu’ hefði upphæðin verið nær 3000 krónum.
Smjattrófan mælir ekki með morgunmat á Gráa Kettinum en hvetur svanga og morgunhressa heldur til að kíkja á Bergsson Mathús eða Laundromat kaffið þar sem hægt er að velja úr fjölbreyttum morgunmat en hún mun fjalla betur um þá staði síðar.
Farðu frekar á Gráa Köttinn í einn kaffibolla (engin ábót) og gluggaðu í blöð eða bók því gott úrval er af lesefni á staðnum og innréttingarnar sem voru hannaðar af Friðrik Weishappel (sem hannaði Laundromat) eru skemmtilegar.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.