Í miðjum Þingholtunum, nánar tiltekið við Grundarstíg nr 10, felur sig einn skemmtilegasti og persónulegasti veitingastaður Reykjavíkurborgar.
Staðurinn ber viðeigandi nafn, Borðstofan, enda er þetta hreinlega borðstofan þar sem skáldið, ráðherrann og bankastjórinn, Hannes Hafstein, sat með sínu fólki og borðaði morgunmat, dögurð, síðdegiskaffi og kvöldmat.
Borðstofan er til húsa í Hannesarholti en Hannesarholt er ný menningarstofnun sem hefur það að markmiði að efla jákvæða, gagnrýna hugsun í íslensku samfélagi, auka skilning á gildi sögunnar fyrir samtímann og framtíðina og hvetja til uppbyggilegrar umræðu og samveru.
Húsið var byggt árið 1915, sérstaklega fyrir Hannes Hafstein.Það er meðal meðal 15 elstu steinhúsa í Reykjavík en Benedikt Jónasson verkfræðingur teiknaði húsið sem þykir ólíkt öðrum húsum í Reykjavík.
Sjónvarpskokkurinn geðþekki Sveinn Kjartansson er sá sem öllu stýrir í Borðstofunni en þar býður hann upp á gómsætan hádegisverð, freistandi létta rétti allan daginn og kaffi með dýrindis meðlæti. Borðstofan býður líka upp á veisluþjónustu, hvort heldur sem er utan eða innan Hannesarholts.
Við Pjattrófur erum eins og allir dyggir lesendur okkar vita, mjög miklar áhugakonur um allt nýtt sem gerist í menningu borgarinnar og því ákváðum við að skella okkur á þennan forvitnilega stað og borða saman hádegisverð í síðustu viku.
Dásamlegur dögurður!
Hádegismatseðillinn samanstóð af nokkrum freistandi réttum en við pöntuðum m.a. andasalat með geitaosti, lasagna með laxi, gráðostaböku og í eftirrétt fengum við undursamlega gott sítrónufrómas með marengs. Allt saman rann þetta einstaklega vel niður meðan við sátum á þægilegum rauðum pluss-stólum við fimm manna hringborð og skemmtum okkur hið besta.
Ein okkar hefur líka prófað að fara í Bröns, eða Dögurð á Borðstofunni og telur fyllilega óhætt að mæla með honum en þú færð eggjaköku, hráskinku eða lax, ávexti, kaffi, appelsínusafa, hafraklatta, túnfisksalat og fleira góðgæti. Enn hefur ekki verið opnað fyrir kvöldverð hjá Borðstofunni en það kemur eflaust að því þegar fram líða stundir.
Borðstofan er einstaklega skemmtilegur veitingastaður í hjarta miðborgarinnar, aðeins frá erlinum og alveg fullkominn til að hitta vini í hádegismat eða fara á trúnó yfir brönsinum um helgar. Efst uppi á lofti er einstaklega skemmtilegt leikherbergi fyrir börnin svo foreldrar ættu að geta notið sín í næði meðan börnin leika sér undir súðinni. Húsið sjálft er svo einstaklega skemmtilegt að skoða en það er bæði smekklegt og fallega upp gert.
Endilega kíktu á Borðstofuna í Hannesarholti í hádegi eða um helgi og njóttu þín eins og ráðherra á síðustu öld – þeir voru sko hefðarkettir lagi!
Smelltu HÉR til að skoða Facebook síðu Borðstofunnar og finna staðsetninguna að Grundarstíg 10.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.