Fyrir skemmstu opnaði bráðskemmtilegur veitingastaður við Laugaveg 24. Staðurinn er öllum opinn og heitir upp á enskuna Public House, eða eins og maður myndi kalla hann á íslensku, Almenningshúsið.
Á Public House er boðið upp á nokkuð fjölbreyttan matseðil en fyrst og fremst er boðið upp á smárétti sem hver og einn getur raðað saman eftir smekk. Ég fékk mér t.d. salat með reyktri önd og geitaosti. Það var dásamlegt. Vinkona mín smakkaði á lambaskanka sem er innbakaður í ástarpung. Þvílíkt kombó! Svo fengum við okkur báðar ótrúlega góða hörpuskel sem maður borðar eins og ostru, beint úr skelinni.
Hún pantaði jafnframt ávexti í ferskri kókoshnetu en það er nokkuð sjaldgæft að manni gefist kostur á að kjamsa á slíku góðgæti hér á landi. Bæði ótrúlega fallegt að horfa á og svo ferskt!
Í hádeginu um helgar er boðið upp á ljúffengan bröns á Public House og þá eru bæði Bollinger kampavín og mímósur á hálfvirði en mímósa er frískandi drykkur gerður úr appelsínusafa og kampavíni. Óskaplega gott og hressandi eftir vökusamar nætur, og líka þó þú sért alveg úthvíld. Bara gott og hressandi.
Public house er lítill og rokkaður staður. Í brönsinum á laugardögum og sunnudögum er spilað 80’s rokk sem gefur stemmningunni hressandi yfirbragð og flestir sitja raulandi mishátt með… á einu augnablikinu var reyndar hálfur staðurinn dottinn inn í að taka Bohemian Rapsody saman. Þá er eitthvað gott að gerast.
Að hitta vinahópinn á Public House eftir skrall kvöldið áður, eða mæta þangað með vinkonuhóp (gæsir etc) er líka frábær hugmynd. Spælsa saman í eina kampavín og halda höfðinu hátt. Ljómandi fínt.
Hönnun staðarins var í höndum Leifs Welding en þemað eru manneskjuleg dýr. Eins og til dæmis þessi pirraði refur og svínið sem minnir á herra Winston Churchill heitinn. Góður og svolítið súrrealískur fílíngur. Það er vandað til verka og öll smíðavinna er mjög flott á staðnum.
Þegar þú ferð á Public House, taktu þá líka eftir veggnum á leiðinni niður á salernin. Hann er eins og hreistur á fisk.
Eins og aðrir góðir kokteilbarir er Public House opinn til kl 01:00 svo ef þú ætlar að taka djammið á staðnum þá skaltu mæta nokkuð snemma. Jafnvel bara á gleðistundina sem er frá 16-19:00. Panta kannski bara borð kl 18:00 og kaupa flösku af víni á hálfvirði. Frábær hugmynd!
Í stuttu máli: Public House er lítill, ofurtöff staður áLaugavegi 24, besta stað í Reykjavík. Maturinn er góður, þjónarnir kurteisir, tónlistin fín og hönnunin skemmtileg! [usr 4]
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.