Við pistlahöfundar hér á Pjattinu vitum fátt skemmtilegra en að fara saman út að borða enda hefðarkettir og lífskúnsterar í bland.
Á miðvikudaginn skelltum við okkur á Tapashúsið en það er nýlegur veitingastaður sem stendur við gömlu höfnina í Reykjavík, beint fyrir neðan Tryggvagötuna. Tapashúsið er með skemmtilegri veitingastöðum borgarinnar en þar fara saman líflegar innréttingar og fjölbreyttur matseðill sem býður upp á allskonar Tapasrétti við allra hæfi.
Einvala lið matreiðslumanna stendur við potta og pönnur Tapashússins en þar fara fremst meðal jafningja þau Vigdís Ylfa Hreinsdóttir sem áður var hjá Fiskfélaginu, Ólafur Már Erlingsson og Ísak Vilhjálmsson.
Tapashúsið tók upp á þeirri nýbreytni nú í haust að hita skammdegið með því að halda svokölluð Kúbukvöld en þá er gestum boðið upp á girnilega smárétti sem hægt er að renna ljúflega niður með suðrænum kokteilum á góðu verði meðan gítarleikarinn Rúnar Þórisson heldur uppi ljúfri og rómantískri stemmningu með lifandi gítartónum.
Pjattrófurnar mæla með þessum valkosti í flóruna enda réttirnir góðir og verðið fínt en þú færð sjö rétti á rúmar fimmþúsund krónur og ef fólk borðar ekki kjöt eða fisk eru kokkarnir boðnir og búnir til að mæta þörfum gesta.
Smelltu hér til að kíkja á nokkrar myndir af stað, mat og stemmingu…
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.