Fyrir skemmstu opnaði nýr veitingastaður í nýju húsi við Skólavörðustíg. Staðurinn hefur fengið nafnið KOL í höfuðið á ofninum í kjallaranum en allar steikurnar á KOL eru eldaðar í kolaofni.
…sem gefur þeim einstaklega gott bragð… þó það sé ekki aðal málið. Stemmningin er að mati pjattrófa jafn mikilvæg og maturinn en auðvitað þarf þetta alltaf að fara saman og eitt getur ekki án hins verið. Þetta tekst vel á Kol og rúmlega það.
Kol er á góðri leið með því að verða heitasti staðurinn í 101 en þú stingur þar vart inn nefi án þess að rekast á einhvern glóðarmola úr fjölmiðlaheiminum eða samkvæmislífinu. Bæði er boðið upp á hádegis og kvöldmat en svo má líka smakka á allskonar undursamlegum kokteilum sem eru hristir saman af nokkuð dásamlegum kokteilbarþjónum.
Víkingur Kristjánsson, sonur sjálfs Kristjáns Jóhannsonar óperusöngvara, hristi til dæmis nokkra kokteila ofan í rófurnar og var með sjálfa Venus af Milo flúraða á handlegginn sem rétti okkur glasið. Það gerist ekki mikið betra. Svo er hann meira að segja með smá ítalskan hreim enda alinn upp þarna fyrir sunnan.
Þó að húsið sé nýtt er eins og staðurinn hafi verið þarna í mörg ár. Hann er kósý, fallega innréttaður af Leifi Welding í klassískum stíl og maturinn á seðlinum er mjög fjölbreyttur og skemmtilegur.
Þú getur valið um smakkseðil, steikur, fisk eða grænmetisrétti, það er tekið tillit til allskonar sérþarfa og öll vín hússins þóttu okkur meiriháttar góð, þá sér í lagi franska rauðvínið Jean Paul eða hvítvínin Montalto Pino Grigio, – og truffujarðskokkasúpan (já, skrítið nafn)… hún var bara truffluð! Næst langar okkur svo að smakka hnetusteikina sem er komin á matseðilinn… flott hjá þeim að bjóða upp á gott fyrir grænmetisætur líka.
Pantaðu borð með fyrirvara ef þú vilt kíkja á KOL, það er yfirleitt fljótt að fyllast á fimmtudögum og um helgar. Svo er bara að njóta, njóta, út á það gengur þetta líf ekki satt?!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.