Sjávargrillið á Skólavörðustíg er og hefur verið einn af eftirlætisstöðum okkar pjattrófa í höfuðborginni frá því hann opnaði fyrir rúmu ári enda fer þar saman góð þjónusta, fallegt umhverfi og einstaklega góður matur.
Við ákváðum að “tríta” okkur með því að prófa jólamatseðilinn þeirra en í fyrra áttum við mjög skemmtilega upplifun þegar við fengum hvern veisluréttinn á fætur öðrum og vel valdar víntegundir með. Á matseðli kallast þetta jólagrillpartý en það samanstendur af þremur forréttum, tveimur aðalréttum og tveimur eftirréttum.
FORRÉTTIR
Reykt svínasíða í BBQ með sveppum, sinnepsgljáa og kartöflumús
Humar og gullkarfi með kartöflum, eplasalati, nípumauki og kræklingasósu
Reyktur og grafinn lax með dillmajonesi, rúgbrauði, rauðrófum og piparrótar matló
AÐALRÉTTIR
Grillaður lax og steinbítur með ísralesku kúskúsi, spergilkáli, gulrótum og gulrótarmauki og humarsoðgljáa
Léttreykt lambakjöt á grilli og purusteik með blómkálsmauki og kartöflusmælki, sveppum, grænkáli og bernaissósu
EFTIRRÉTTIR
Hvítt rommsúkkulaðimús með dill sorbe
Kanil Creme Brulé með epla sorbe, hvítvínssoðnum eplum og hundasúrugranítu
***
Okkur fannst maturinn svo dásamlegur af því flestir réttirnir eru léttir og ljúffengir í senn og það er um að gera að borða vel af fiski á aðventunni því jólin eru mesta kjötveisla í heimi og við þurfum ekki að byrgja okkur upp af kjöti helgarnar fyrir jól. Svo er svo gaman að sitja bara og bíða eftir því að hver veislurétturinn á fætur öðrum sé lagður á borðið fyrir framan mann!
Okkur finnst eiginlega ekkert skemmtilegra en að fara í svona ævintýraferðir á veitingahús og höfum við þegar prófað þó nokkur á liðnum misserum.
Það var mjög mikið af útlendingum á Sjávargrillinu en ástæðan er sú að staðurinn fær svo góða dóma á Tripadvisor. Þar trónir hann á toppnum sem eftirsóttasti staðurinn og það eru hreinlega frábær meðmæli!
Svo er líka voða gaman að geta setið og slúðrað hægri vinstri án þess að hafa áhyggjur af því að einhver frændi sitji kannski með sperrt eyru á næsta borði. Svolítið eins og að vera erlendis, nema hvað að þú ert í hjartanu á 101.
Jólagrillpartý Sjávargrillsins kostar 8.700 fyrir matinn en 15.400 ef þú velur þér vínpakka með. Við mælum allar algerlega með Sjávargrillinu. Erum fastagestir staðarins, bæði í hádeginu og oft á kvöldin.
Takk fyrir okkur ❤ og gleðileg jól! *<[:{)
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.