Nýlega opnaði veitingastaður við höfnina í Reykjavík sem býður upp á góðgæti úr eðal íslensku hráefni framreitt á suður – ameríska og evrópska vísu.
Staðurinn er einstaklega vel staðsettur við höfnina þar sem mjög skemmtileg menning hefur verið í vexti síðustu misseri. Á sama stað er einnig að finna hönnunarverslunina Mýrina sem selur fallegan varning frá norrænum fagurkerum og hönnuðum.
MAR er skemmtilega hannaður af þeim Hafsteini Júlíusyni ogKaritas Sveinsdóttur, bjartur og opinn með stóra glugga og stór hringborð svo að gestir geti náð vel saman sé mætt í stórum hópum. Leirtau staðarins er jafnframt eitthvað sem vert er að minnast á en það er sérhannað fyrir vetingahúsið af Guðnýju Hafsteinsdóttur og einstaklega fallegt.
Matseðillinn er fjölbreyttur og girnilegur en eitt af því besta sem við vitum er að koma í hádeginu að borða annaðhvort humar eða hráskinku piadina með tómötum, mozarella og sætkartöflufrönskum. Mmmmm… alveg hrikalega gott. Piadina er ítalskt flatbrauð sem þekkist víða á ítölskum veitingastöðum og er borið fram með fjölbreyttu góðgæti.
Eggaldinbuff með sítrónu basil sósu er líka matur sem gleður bragðlaukana og fiskisúpan á staðnum er draumur. Svo er eftirréttur dagsins á aðeins 750 kr! Alltaf gott að fá sér eitthvað sætt með kaffinu eftir matinn.
Eitt af því besta við MAR er þó sú frábæra staðreynd að þar má kaupa sér ódýrt en mjög gott vín með matnum. Flestir veitingastaðir eru ekki með vínflöskur undir 6000 krónum en á MAR getur þú fengið bæði úrvals rauð – og hvítvín á litlar 3600 fyrir flöskuna.
Vínin eru fyrsta flokks, Trapiche fá Argentínu bæði rautt og hvítt, Villa Lucia frá Ítalíu, bæði rautt og hvítt og svo Crin Roja rauðvín frá Spáni.
Hádegismatseðillinn er opin frá kl 11:30 – 14:00 en eftir það tekur við Aperitivo stund til klukkan 18:00. Aperitivo má kalla ítalskt Happy Hour en á þessum tíma eru bjór, rauðvín og hvítvín á Aperitivo verði. Þá er vínglasið á 700 kr, bjórinn á 500 kr og kokteilar á 1000 kr.
Gaman er að segja frá því að Sveinn Þorri Þorvaldsson yfirkokkur á MAR var áður á Gallerý Holt en yfirþjónninn, Jón Ingi Hrafnsson var áður á Argentínu og Fiskmarkaðnum.
Margir myndu halda að MAR væri því algjör “hefðarkattastaður” en það besta við MAR er að þú færð hefðarkattaþjónustu og dýrindis mat og vín á heimiliskattarverði.
Piadian í hádeginu kostar t.d. 1.990 kr sem er sambærilegt verð og gengur á flestum veitingastöðum borgarinnar á hádegismatseðlum.
Á Aperitivo stundinni er svo hægt að panta nokkra góða smárétti sem sumar er að finna á hádegisseðlinum:
- Piadina með parmaskinku, tómötum og mozarella – 1990
- Piadina með steiktum humarhölum – 2490
- Kókos og lime krydduð skelfiskssúpa – 2100
- Linsubaunasúpa – 1350
- Kjúklingasalat með appelsínum og plómum – 1900
- Eggaldinbuff með sítrónu og basilsósu – 1900
- Antipasti platti með chorizo pylsu, hráskinku, ólífum, grilluðu grænmeti og fleira góðgæti – 1700
- Ostaplatti með úrvali af íslenskum ostum borið fram kexi og drottningarsultu úr villiberjum – 1700
- Kaka dagsins – 750 og volg súkkulaðikaka á 1500 kr
Við hvetjum lesendur okkar eindregið til að kíkja á MAR, hvort sem er í hádeginu með vinnufélögum, á Aperitivo stundinni síðdegis, nú eða í kvöldverð með makanum, fjölskyldu og/eða vinum.
Smelltu hér til að skoða myndir frá opnun staðarins og HÉR má sjá myndir af því þegar 50 glæsikvendi fjölmenntu á MAR fyrr á þessu ári…
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.