Við Pjattrófur förum alltaf saman út að borða annað slagið enda elskum við allar góðan mat og góð vín í fallegu umhverfi.
Fyrir valinu að þessu sinni varð indverski veitingastaðurinn Gandhi í kjallaranum á Skólabrú við Pósthússtræti.
Gandhi er einstaklega notalegur staður og frábær viðbót við veitingahúsaflóruna í borginni. Hann opnaði fyrir tæpum tveimur árum og vinsældirnar fara vaxandi enda ekki annað hægt en að koma aftur ef þú hefur einu sinni farið þarna út að borða.
Kokkarnir á staðnum koma beint frá Suður-Indlandi og það finnst á hverjum einasta rétti sem lagður er á borð. Maturinn er mjög ‘authentic’ og Naan brauðið – já maður minn!
Við pöntuðum okkur úrval rétta. Tvo grænmetisrétti, tvo kjúklingarétti og einn fiskrétt. Þessu deildum við með okkur og nutum með raita, mango chutney og þrem tegundum af naan: Hvítlauks, sætu og með smjöri… mmmm* Við drukkum hvítt með og fengum okkur svo kaffi og lúffengan ís í eftirrétt.
Við mælum með því að þú smakkir matinn á Ghandi. Staðurinn er dásamlegur, lítill og kósý og maturinn — akkúrat mátulega kryddaðar kræsingar beint úr indversku eldhúsi!

Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.