Á leiðinni út, hvort sem er það er í veislu eða bara út á lífið með góðum vinum, ætlum við dömurnar oft að vera útsjónasamar og pökkum því í flýti niður nokkrum vel völdum snyrtivörum.
Fullvissar höldum við út í þeirri trú um að þessi tæki og tól munu hjálpa okkur við að halda húðinni mattri og vörunum þrýstnum fram á rauða nótt.
Það er nú allt gott og blessað að vera vel undirbúinn og vissulega er dansgólf á skemmtistað í Reykjavík vígvöllur einn en erum við að undirbúa okkur rétt fyrir átök kvöldsins?
Sjálf var ég í þessari stöðu um daginn, í tískutengdri tímaþröng (e.fashionably-late) og stóð mig að því að vera belgja út fallegu Hidden Goods töskuna mína af hinum ýmsustu græjum.
,,Bíddu nú við Anna Margrét”, hugsaði ég með mér (-ég tala heil ósköp við sjálfa mig)…Hvað ertu að fara gera með fjóra varaliti sem eru allir bleik-ferskju-sanseraðir, eiginlega í sama litnum, tvo nude-litaða varablýanta, auk sólarpúðurs (N.B alltof dökkt), ilmvatnsglas, bleikur, rauður og líka bleikrauðurkinnalitur, augabrúnagel (ekki spyrja), brúnn maskari (ég nota ekki brúnan maskara), svamp og tvo plástra með myndum af hlæjandi krókódílum?
Er ég að fara framkvæma líkförðun á trúð? Eða er ég bara að fara út í tvo drykki á Slipparinn og svo heim fyrir miðnætti? (Þið megið giska..)
Nú geri ég ráð fyrir að lesendur Pjatt.is hafi á einhverjum tímapunkti farið út að skemmta sér;
Þú ert í fantastuði, plötusnúðurinn er óvenju hlýðinn, aldrei þessu vant, röðin á kvennaklósettið er í sögulegu lágmarki og upp er dregin snyrtibuddan. Hér ættu viðvörunarbjöllurnar að byrja klingja og það hátt! Skemmtistaðir ættu að sjá það í sóma sínum að hafa skilti fyrir ofan speglana sem á stendur:
,,Þarftu extra lag af meiki? Er nokkuð þörf á meiri gloss? Er dragdrottningar-þema í kvöld? Ef svarið var nei við þessum spurningum er bara eitt í stöðunni: Step away from the make-up!
Ég tók saman lista yfir top 10 hættulegustu snyrtivörurnar til að hafa með sér á djammið. Listinn er ekki tæmandi, uppsetningin byggir á hættuleikastigi, þ.e. nr. 10 þykir áhættusamt og nr. 1 er stranglega bannað undir öllum áfengistengdum aðstæðum).
10. Meik
Sérstaklega fljótandi. Meik er eitthvað sem þú setur á þig eiginlega bara einu sinni. Nema þú sért að reyna fela glóðurauga. Ef svo er, slepptu bara djamminu og vertu heima.
9. Augabrúnablýantur
Margir borga einstaklingum sem eru lærðir fagmenn til að plokka, lita og móta augabrúnirnar. Hvort heldur þú að faglærð manneskja á snyrtistofu eða þú, drukkin á illa lýstu, þröngu baðherbergi á skemmtistað, sé hæfari til að laga augabrúninar þínar? Nei, akkúrat!
8. Maskari
Hann harðnar og ef þú ert að ,,jugga” maskara ofan á nú þegar þurran maskara, þá byrjar þurri maskarinn undir að brotna niður og úr verður algjört öskufalls ástand framan í þér. Halló Eyjafjallajökull.
7. Kinnalitur
Sá þykir kannski saklaus vinur en eftir nokkra mojito-a þá tapast tilfinningin fyrir hversu undirstrikuð kinnbeinin ættu að vera. Ekki nema þú sért á leið á 85-ball.
6. Varablýantur
Vissulega fer það eftir litnum, mjög ljós varablýantur sleppur naumlega en því dekkri sem hann er því hættulegri. Brúnn/Svartur er algjört no-no, enda viltu ekki líta út eins og gráðugur krakki sem komst í súkkulaði ísinn.
5. Varalitur
Hér gildir hið sama og um varablýantana en það sem er ennþá skæðara við varalitina er sú staðreynd að með minnkandi jafnvægi eykst áhættan á því að hann endi að mestu leyti á tönnunum þínum. Það er ekki og mun aldrei koma í tísku að vera með eitthvað á tönnunum.
4. Glimmer
Ég ætti ekki að þurfa taka þetta fram. Bláedrú einstaklingur, með fulla einbeitingu, á fullt í fangi með að setja á sig glimmer án þess að líta út fyrir að hafa orðið undir Gay-Pride lestinni. I rest my case.
3. Baugafelari
Upphaflega átti baugafelarinn að fara á Bó-segir-Gó listann (það fáa sem á heima í djamm-buddunni). Eftir að hafa skoðað sannfærandi sönnunargögn frá ónefndri pjattrófu er það hins vegar á hreinu að hann skal skilinn eftir heima. Að vera hvítur undir augunum er jafn skringilegt og vera svartur undir augunum. Það ætti að vera nóg að strjúka undan augunum með púður svampi.
2. Ilmvatn
Næst hættulegasta snyrtivaran til að taka með sér á skrallið. Aldrei spreyja á þig ilmvatni á djamminu! Fólk er búið að drekka (mikið) og því er oft flökurt. Þú vilt ekki að sessunauturinn þinn á barnum kalli fram uppköst útaf því að þú sturtaðir yfir þig Victorias Secret Body Splash Sexy Strawberry Cuddles. Hættulegt og eiginlega dónalegt líka.
1. Blautur eye-liner
Ef glimmer er hættulegt þá er blautur eye-liner erki óvinurinn. Það tekur flesta mörg ár, fjöldann allan af tilraunum og fórnun margra eyrnapinna til að fullkomna blauta eye-liner línu. Ég get ekki lagt nægilegan þunga á þetta loka böl íslenskra kvenna á djamminu. Þetta er bannað. Þetta má ekki. Þetta er ákæruhæft.
Dömur mínar kærar. Hafið þetta hugfast. Þið eruð allar klárar í kollinum og sætar í framan. Það er óþarfi að draga þetta í efa.
Skildu snyrtibudduna eftir heima og slettu ærlega úr klaufunum; laus við djammviskubit og nagandi áhyggjur yfir rofakenndum minningum um háskaaðgerðir á kvennaklósettum.
Góða skemmtun!
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.