Þegar fólk kemst á miðjan aldur, svona upp úr fertugu, grípur það stundum ógurleg tilvistarkreppa og þetta er að sjálfsögðu vel þekkt.
Hjá körlum kallast kreppan „grái fiðringurinn“ og birtingarmyndirnar eru nokkuð staðlaðar þótt mennirnir sjálfir geti verið mjög ólíkir.
Dæmigerður nútímakarl í þessari miðaldrakrísu kemur sér úr löngu hjónabandi með undarlegri hegðun (því ekki ætlar hann að eiga frumkvæði að skilnaði).
Ef hann er ekki þegar búinn að niðurhala Tinder í snjallsímann, þá er næsta skref að kaupa eitthvert farartæki. Til dæmis rándýrt reiðhjól og – auðvitað – kort í ræktina.
Okkar maður ímyndar sér að framundan séu góðir tímar. Allskonar deit með allskonar konum, skrautlegt kynlíf og skemmtilegar íþróttaferðir með „strákunum“ en eftir sirka tvö til þrjú ár rennur það upp fyrir aumingja manninum að hann er ekkert betur settur án fjölskyldunnar og fyrrverandi. Pabbahelgarnar eru liðnar hjá og honum finnst hundleiðinlegt að borða alltaf einn.
Konur í krísu- Fjólublái fiðringurinn
Konur í sömu krísu, sem við gætum kallað „fjólubláa fiðringinn“, hegða sér aðeins öðruvísi.
Fyrsta skrefið er vanalega einhverskonar fegrunaraðgerð og/eða húðflúr, mikil sjálfskoðun, núvitundaræfingar og umbylting í mataræði. Á sama tíma drekka þær einnig ósköpin öll af rauð- og hvítvíni. Þær fara í jóga, göngu og reiðhjólahópa og lýsa því svo háfleygt yfir að þær ætli ALDREI AFTUR Í SAMBÚÐ en á sama tíma fá allir Tinder-ræflarnir, sem ekki eru með góða innkomu, að fjúka til vinstri.
Hugsiði ykkur tvisvar um
Það er svolítið merkilegt að hver árgangurinn á fætur öðrum skuli fara í gegnum þessa krísu og gera nákvæmlega sömu hlutina með nákvæmlega sömu niðurstöðunum.
Er ekki bara hægt að vara fólk við þessu eins og öðrum veðrabreytingum? Afhenda leiðbeiningabækling þegar menn koma í fyrstu blöðruhálsþreyfinguna í mars og konur fá fyrsta Vagifem-pakkann?
Skilnaður er kostnaðarsamt uppátæki og eftirleikurinn getur verið óskaplega flókinn. Að reyna að púsla saman nýrri heild með nýjum maka, hans/hennar uppkomnu börnum, yngri börnum og fyrrverandi mökum ásamt nýju mökum þeirra. Biddu fyrir þér. Þá erum við fyrst að tala um alvöru tilvistarkreppu!
Ef skilnaðurinn verður hinsvegar ekki umflúinn, hafðu þá ofangreint í huga og mundu að taka nóg af B-12 til að jafna út áhrifin af hvítvínsdrykkjunni.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.