Hugsanir, orðaval og athafnir okkar eru stór áhrifavaldur í því hvernig okkar daglega líf þróast.
Sjálfstal felur oft í sér spurningar sem við spyrjum okkur sjálf að og ef rýnt er nánar í það hvaða mynstur einkennir sjálfsspurningar þessar er hægt að komast að því hvort við séum að skapa okkur verri eða betri aðstæður hverju sinni.
Gott dæmi er á hverjum morgni þegar við vöknum og förum í sturtu þá eru mörg okkar að velta okkur upp úr líkamspörtum sem við erum óánægð með:
„ Af hverju safnast öll fita þarna, af hverju tekst mér aldrei að ná þessu helv…af ?“ eða þegar við erum í leit eftir einhverju; maka, vinnu eða húsnæði:
„Af hverju tekst mér aldrei….., af hverju þarf ég alltaf að lenda í…., af hverju finn ég aldrei það sem ég leita eftir“.
Hver einasta spurning sem við spyrjum okkur getur verið hindrun í eigin lífi, vegna þess að ef þú veltir þér aðeins upp úr þessu þá getur verið að sjálfsspurningar okkar séu merki um undirliggjandi viðhorf og gildi til okkra sjálfra.
Líkt og við uppfærum símana og tölvurnar okkar er ekki alveg eins kominn tími á það að uppfæra sjálfsspurningar okkar og sjá hvort það hjálpi okkur eitthvað áleiðis ?
Rótgróin gildi og viðhorf skapa okkar eigin raunveruleika. Gildin mótast frá æsku og þeirri reynslu sem við upplifum hverju sinni, smám saman mótum við okkar eigin viðhorf út frá þeim gildum sem við teljum mikilvæg. Sjálfsspurningar okkar geta endurspeglað þau undirliggjandi gildi sem við erum oft ekki meðvituð um.
Með því að tileinka sér meðvitund og læra að þekkja sjálfsspurningar okkar getum við náð að breyta þeim í mun jákvæðari staðhæfingar í eigin garð og jafnvel munu hlutirnir fara að ganga upp í kringum þig.
Þegar við veltum okkur upp úr „Af hverju….(spurningum)“ og sitjum föst í tilhneigingunni að við séum ekki nógu góð, förum við ósjálfrátt að taka bara eftir því neikvæða í kringum okkur, eins og fréttum, athugasemdum og hegðun annara gagnvart okkur. Þá fara sjálfsspurningar okkar að draga úr eigin trú og sýn á hæfileikum, getu, reynslu og styrkleikum okkar.
Við þurfum að byrja á að staldra við og sjá og þakka fyrir allt það jákvæða sem við höfum.
Undirmeðvitundin er mun sterkara afl heldur en meðvitundin okkar og oft er þessi vitund mörkuð af fyrri reynslu. Reynslu sem var erfið og einkennist því af neikvæðni, ótta og vantrausti í eigin garð til þess að hjálpa okkur að komast hjá neikvæðri reynslu, eins og höfnun eða vonbrigðum.
Þessu er hægt að breyta
BYRJAÐU á því að temja þér meðvitund og taktu eftir spurningum og staðhæfingum sem þú hefur í eigin garð. Skrifaðu þær niður á blað sem er skipt í tvo dálka (vinstri dálk).
NÆST skaltu skoða spurninguna/staðhæfinguna og sjá hvaða grunngildi er undirliggjandi og hvort það sé styrkjandi fyrir sjálfsmynd þína.
AÐ LOKUM skaltu læra að þekkja neikvæðar spurningar/staðhæfingar og uppfæra þær þannig að þær verði uppbyggilegar fyrir þig. Vinstra megin á blaðinu eru gamlar, hindrandi spurningar/staðhæfingar og hægra megin á blaðinu koma nýjar uppbyggilegar og jákvæðar spurningar/staðhæfingar.
Dæmi: „Af hverju fékk ég ekki starfið sem ég sótti um“ er sjálfsspurning sem hjálpar þér ekkert, umbreyttu henni í „Þetta starf var ekki ætlað mér, ég dett á eitthvað mun betra starf“
Því oftar sem þú tekur eftir sjálfsspurningum og staðhæfingum þínum í eigin garð því betri verður þú í að endurmeta og umorða þær til hins betra fyrir þig.
Gerðu tilraun á áhrifamætti huga þíns og vana hans með því að taka eftir því hvernig spurningum þú varpar til þín eða hvernig staðhæfingar eru algengar hjá þér. Það er hreint MAGNAÐ hversu margar neikvæðar hugsanir eru til staðar hjá okkur og við gerum okkur enga grein fyrir þeim, – eða hversu mikið þær koma niður á líðan okkar!
Vendu þig AF ÞVÍ að dæma sjálfa/n þig, taktu eftir og vendu þig á að sjá það góða, jákvæða og besta í stöðunni. Skapaðu ÞITT EIGIÐ uppbyggjandi tungumál!
Ragnheiður Guðfinna er fædd árið 1980. Hreinræktaður Vestmannaeyingur í húð og hár. Hún hefur í gegnum tíðina sinnt ýmsum störfum til sjávar og sveita, meðal annars tekið á því í netavinnu og humarvinnslu, sinnt fyrirsætustörfum og sölu -og markaðsmálum svo sitthvað sé nefnt en í dag starfar hún sem ráðgjafi í vinnusálfræði hjá Stress.is. Ragnheiður á tvö börn og á fyrirtaks mann sem tekur rómantíkina alvarlega.