“Það eru allir með svo mikið af vandamálum,” sagði vinkona mín á kaffistofunni í gær.
Við vorum að ræða spákonur yfir kaffibolla og af hverju sumir færu svo mikið til þeirra, þar á meðal vinkonan sem var nýkomin frá einni á Kjalarnesi.
“Já, einmitt,” sagði ég hugsi. “En af hverju sparaðir þú þér ekki peninginn og spurðir mig bara? Ég hefði getað sagt þér nákvæmlega það sama og spákonan: Að þú værir fædd undir heillastjörnu, ættir falleg börn og sá eini rétti væri rétt handan við hornið!” Við hlógum að þessu og hugmynd minni að gerast nú loksins spákona.
Við höfum mörg farið til spákvenna og karla til að forvitnast um framtíðina. Efasemdarmenn vilja meina að spáfólk ljúgi okkur uppfull af allskonar bulli og hafi af okkur peninga í leiðinni. Aðrir eru á öndverðu meiði og heimsækja spáfólkið af því að það er næmt á aðra og getur oft bent okkur á styrkleika og veikleika í eigin fari. Það virðist þó eins og fólk fari helst til spáfólks þegar það stendur á tímamótum; eftir sambandsslit, erfiðleika í starfi, erfiðleika með börn og einkalíf eða eftir ástvinamissi.
Fólk vill lausnir og leiðbeiningar frá vandamálum sínum.
Norman Vincent Peale, höfundur metsölubókarinnar Afl jákvæðrar hugsunar áleit vandamál af hinu góða, þau væru einfaldlega merki um að við værum að lifa lífinu. Svo lengi sem fólk dregur að sér andann mun það glíma við alls konar vandamál – vandamálalausa liðið hvílir undir grænni torfu í kirkjugarðinum. Vandamál eru til þess gerð að leysa úr þeim, við styrkjumst við hverja raun og við taka ný og stærri vandamál sem við ráðum þá betur við. Spákonur og karlar munu sennilega alltaf leika sér að því að leysa úr flækjum þeirra sem þess óska, sumir auðvitað betur en aðrir. Kunningjakona mín er spákona og segist vera í draumastarfinu: “Ég horfi á fólk til að taka það út, segi svo það sem kemur upp í hugann og fæ peninga fyrir.”
Já, þetta er nokkuð góð dagvinna!
Til gamans er HÉR myndband af spákonu með gott viðskiptavit…
…sem reynir að hafa um 800.000 krónur af konu sem leitaði til hennar með vandamál sín. Peningana þóttist spákonan ætla að brenna ofan í holu í jörðinni en sá gjörningur átti að losa konugarminn við öll vandamálin!
Af þessu varð þó ekki því konan reyndist fréttamaður sem tók allt upp á spólu. Það er áhugavert að sjá viðbrögð spákonunnar þegar upp um hana kemst.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.