Það er Valentínusardagur í dag. Ekki að það skipti mig neinu sérstöku máli en ég hef alveg tekið eftir því að það fer smá í taugarnar á sumum að fólk langi að halda upp á þetta.
Valentínus hét kaþólskur maður sem var víst afhausaður þennan dag fyrir ótal árum og í kjölfarið var hann gerður að dýrlingi hjá kirkjunni. Af hverju hann tengist ást milli konu og karlmanns er heldur óljóst. Í fyrsta lagi er kaþólska kirkjan alls ekki mikið fyrir ást og rómantík, kaþólskir prestar mega ekki einu sinni gifta sig og svo mega kaþólikkar ekki skilja heldur, sem segir okkur að það er lítill skilningur á ástarmálum hjá þessari kirkju. En hvað um það…
Við nútímafólk elskum hreinlega hugmyndina um ástina. Ástina milli konu og karls. Ást sem er rosalega djúp og frábær og varir helst að eilífu. Ást sem virkar þannig að fólk er skotið í hvort öðru sem allra lengst, þar til það verður gamalt og krumpað og deyr svo um nírætt, helst með nokkurra daga millibili, eftir æðislega ævi saman sem gaf börn, barnabörn og barnabarnabörn.
Fólk vill gjarna fagna þessari pælingu alveg eins og það langar að fagna pælingunni um drauga og forynjur sem hressa okkur aðeins við í kringum Allraheilagramessu (Halloween).
Við viljum líka fagna hugmyndinni um góða strákinn hann Jesú sem tók allt ruglið í okkur á sig („ég tekidda bara á mig krakkar”) og dó svo, til að undirstrika þessa mögnuðu fórnfýsi.
Af þessu tilefni borðum við m.a. páskaegg um það leiti sem hann fór á krossinn (páskaegg eru reyndar rammheiðin pæling) og allir fá frí í vinnu og skóla. Stöku manneskja fagnar þó páskum og fórnfýsi frelsarans með því að lesa Passíusálmana en flestir eru aðallega að spá í súkkulaðið, málsháttinn og kannski skíðaferð.
Svo viljum við líka halda upp á það að þessi góði drengur fæddist og því höldum við jólin og fáum frí frá vinnu og skóla.
Reyndar veit enginn nákvæmlega hvenær hann fæddist og svo “merkilega” vill til að sólin byrjar einmitt að hækka á lofti 21. des, sem er rammheiðinn ástæða til að fagna. Það hvarlar ekki að neinum (nema Jehóvum) að sleppa því að fagna. Við blöndum þessum siðum bara saman, eftir smag og behag, og útkoman verður oft á tíðum hefðasúpa sem einkennir okkur m.a. sem þjóð.
Konudagurinn er næsta sunnudag 19. febrúar og við Íslendingar fögnum honum af álíka heiðinni ástæðu og jólum … vorið er á leiðinni. Blessuð Góan blæs á þetta hundleiðinlega skammdegisþunglyndi og kemur eins og yngismær með brum, fuglasöng og fiðring í maga, feykir Þorra á brott.
Öskudagurinn er svo annar kaþólskur siður sem allir fíla, þó að við séum fæst kaþólsk, og hvað með öll þessi borrablót? Bíddu ert þú í Ásatrúarfélaginu? Nei. Ekki ég heldur. Svona mætti svo auðvitað lengi telja.
Sjálf er ég hlynnt því að við tökum upp sem flesta siði, hefðir og venjur sem gefa okkur tilefni til að gera okkur dagamun, skreyta, breyta til og hafa það gaman.
Hvort maður tengi sérstaklega við ástina, þorrann, Jesú, vorið, drauga eða hvað svo sem er á bak við þetta allt… það er bara algjört aukaatriði. Þetta snýst bara um að koma saman, fagna og njóta. Væri til dæmis ekki gaman að halda hérna upp á dag hinna dauðu með glæsibrag eins og gert er í Mexíkó? Nú eða sumarsólstöður (Jónsmessu) með sama blasti og þau gera á Spáni! Vá hvað ég væri nú til í það.
Meira partý meira fjör! Þetta snýst nefnilega einfaldlega bara um að elska lífið, hafa það soldið gaman og ekki síst NÆS! Að því sögðu:
Gleðilegan Valentínusardag! Áfram ástarsambönd!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.