Vala Árnadóttir er ein af okkur Pjattrófunum og hefur skrifað á síðuna næstum því frá upphafi.
Fyrir utan það að vera pjattrófa í þrjá ættliði (mamma hennar er snyrtifræðingur og amman fór aldrei út nema með púður og varalit) þá er hún að öllum líkindum eina konan á landinu sem er menntuð sem hönnunartæknir og innkaupastjóri frá TecoCenter í Danmörku.
Já, titillinn situr kannski aðeins í þér en starfslýsingin er fólgin í því að gera viðskiptaáætlanir fyrir hönnuði, finna framleiðendur og vörur, gera gæðaprófanir og sjá um viðskiptahlutann sem liggur að baki því að framleiða vöru og koma henni í sölu og dreifingu.
Fyrir þremur árum gerði Vala slíka áætlun fyrir hönnuðina á bak við E-label en í dag eru þær vörur komnar í sölu í Top Shop í Bretlandi svo varla er hægt að segja annað en að vel hafi tekist til.
Vala gerði þannig tveggja ára áætlun fyrir E-label í upphafi markaðssetningarinnar vörunnar sem síðar leiddi til þess að E-label merkið komst á kortið svo um munar enda tók Ásta í Eskimó við keflinu og leiddi verkefnið áfram af festu. “Það er jú með þetta eins og annað að þarf samstillt átak til að svona verkefni gangi vel upp,” segir Vala.
En af hverju þurfa nýir hönnuðir á svona aðstoð að halda?
“Það er vissulega til þess að hönnuðirnir geti einbeitt sér að því sem þeir eru bestir í, sem er að hanna föt eða vörur. Það er mjög erfitt að sameina það að vera skapandi og þurfa á sama tíma að hafa áhyggjur af viðskiptahliðinni og öllu sem henni viðkemur,” segir Vala.
“Mér finnst allt of algengt að fólk mennti sig á sviði hönnunar eða lista en endi svo í brauðstriti við eitthvað allt annað. Með því að sameina kraftana er hægt að koma svo miklu til leiðar. Sjaldan eru listamenn miklir viðskiptamógúlar enda eiga þeir ekki að þurfa að kunna allt. Flestar hljómsveitir hafa til dæmis umboðsmenn eða útgefendur sem sjá um þessi mál meðan tónlistarfólkið semur tónlist. Það sama ætti að eiga við um hönnuði og aðra listamenn.”
Og hvað er planið?
“Hugsjón mín í dag er að koma íslenskri hönnun í sölu erlendis enda er það nákvæmlega það sem við þurfum. Mér finnst allt of margir hönnuðir fastir í því að selja lítið upplag í búðum á Íslandi í stað þess að reyna að koma þessu út fyrir eyjuna. Þeir hafa kannski ekki fjármagnið til þess að ferðast og fara á ráðstefnur en umboðsaðili getur tekið svona að sér fyrir fleiri en einn hönnuð í senn og vakið athygli á þeim erlendis.”
Myndir þú neita því að taka að þér að vera umboðsaðili fyrir hönnuð sem þér litist illa á?
“Já, ég myndi aldrei taka að mér að reyna að koma einhverju á markað sem ég sæi ekki fyrir mér að myndi seljast. Hönnuðir eiga oft litla peninga og það myndi ekki vera skynsamlegt þar sem maður sér fram á að tekjurnar verði að skila sér seinna. Í samvinnu við hönnuði þarf að vera mikið traust og vilji til samstarfs. Það má t.d. ekki búast við miklum árangri af áætlun sem ekki er farið eftir,” segir Vala og brosir.
Ef þú vilt ná í Völu þá er hægt að senda henni email með því að smella hér.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.