Í mars síðastliðnum fór ég ásamt vinkonu minni á ráðstefnu í Hollandi. Ferðina byrjuðum við og enduðum í Amsterdam en ráðstefnan var haldin annars staðar.
Ferðin var dásamleg og Amsterdam er eftir þetta ein af mínum uppáhalds borgum þó að hún sé eini staðurinn í heiminum þar sem ég hef upplifað menningarsjokk.
Ég hef ferðast nokkuð víða síðan ég var 13 ára. Á þessum 14 árum hef ég ferðast til þriggja heimsálfa og komið til 20 landa. Sum landanna sem ég hef ferðast til hafa verið mjög framandi en ég hef einhvernvegin alltaf verið viðbúin því og hef aldrei upplifað menningarsjokk fyrr en ég fór til Hollands og villtist óvart inn í Rauða Hverfið.
Öruggur staður til að vera á?
Ég hafði að sjálfsögðu eins og flestir aðrir heyrt um Rauða Hverfið og ég vissi hverskonar viðskipti fara þar fram.
Ég hef alltaf vitað að ég væri á móti vændi en einhvernvegin hljómaði starfsemin í Rauða Hverfinu betur en annað vændi. Þó mér hafi alltaf fundist það algjör andstyggð að borga annarri manneskju fyrir afnot af líkama þeirra þá fannst mér að það hlyti að vera allavega „öruggt“ umhverfi fyrir fólk sem einhverra hluta vegna kysu að selja líkama sinn.
Áður en ég fór til Hollands vissi ég að ég vildi ekki heimsækja þetta hverfi, en það fór svo þannig að fyrsta kvöldið í Amsterdam ætluðum við vinkona mín að hitta aðra ráðstefnugesti á bar í nágrenni við hostelið okkar og þar sem við vorum ekki alveg kunnugar umhverfinu villtumst við inn á aðalgötu Rauða Hverfisins.
Mér leið strax illa þegar ég áttaði mig á því hvert ég væri komin og enn verr þegar ég sá konurnar á bak við gluggana. Það versta var samt að horfa á karlmennina sem stóðu fyrir utan gluggana „window shopping“ eftir hinni „einu réttu“. Ég held að ég hafi aldrei skynjað einstaklinga eins lágt niðri á þróunarskalanum eins og ég mér fannst þeir karlmenn vera sem hurfu inn hjá hórunum í Amsterdam.
Skuggahliðar frjálsræðis
Þegar ég kom aftur til Amsterdam eftir ráðstefnuna fór ég í ferð með leiðsögufyrirtæki sem heitir Amsterdam Underground um borgina og þessi tiltekna ferð er nokkuð sem ég mæli með fyrir alla sem sækja þessa yndislegu borg heim.
Leiðsögumaðurinn var fyrrum fíkill sem bjó í mörg ár á götum Amsterdam. Hann sagði okkur frá skuggahliðum borgarinnar og þess frjálsræðis sem þar ríkir, aðallega hjá þeim sem koma að vændi. Hann sagðist hafa hitt á sínum ferli örfáar hórur á götunni sem hefðu ekki farið tilneyddar, á einhvern hátt, út í vændi.
Hann sagði um 80% þeirra vera fórnarlömb mansals og/eða starfa undir hórmangara. Þær sem hann svo vissi að höfðu farið sjálfviljugar út í vændissölu kusu það flestar sem tímabundna atvinnu til að safna sér fyrir framtíðinni. Fáar komust hinsvegar nokkurtíma út úr því þó þær hefðu gjarnan viljað. Eftir að heyra þetta leið mér enn verr vegna þess máttleysis sem ég fann fyrir þegar ég sá þessar konur fastar á bak við gluggana.
Eftirspurn & framboð eða samfélagsmein?
Við heimkomuna frá Amsterdam gjörbreyttist allt mitt viðhorf til vændis.
Ég hafði alltaf verið á móti því og haft viðurstyggð á því fólki sem nýtti sér neyð þessa einstaklinga sem sjá sér engan veg færann annann en að selja líkama sinn -hvort sem sú neyð sé andleg, fjárhagsleg eða vímuefnatengd.
Vændi er ekki aðeins vandamál þeirra sem stunda það sem kaupendur eða seljendur, vændi er samfélagsmein.
Lögleiðing vændis er ekki heldur sá draumaheimur sem fólk ímyndar sér.
Flest mansalsfórnarlömb í heiminum eru flutt til Hollands og Þýskalands þar sem vændi er að mestu leyti löglegt.
Vegabréfin þeirra eru tekin af þeim og þeim er hótað að fjölskyldur þeirra hljóti illt af ef þau reyni að flýja.
Fórnarlömbin, sem eru í flestum tilvikum fátækar konur frá Austur-Evrópu sem ákváðu að freista gæfunnar í öðrum löndum, eru barin til hlýðni og fá lítil eða engin laun þar sem þær tekjur sem þær þéna fara í vasa hórmangarans þeirra sem segir þær skulda sér óheyrilegar upphæðir fyrir ferðakostnað, uppihald og margt fleira.
Vissulega eru til vændiskonur sem hafa það ágætt, eru sínir eigin vinnuveitendur og afla ágætra tekna, en oftast hafa einhverskonar fjárhagsörðugleikar rekið þær út í þessa atvinnugrein sem stenst svo engan vegin væntingar þeirra. Vændið brýtur þær niður andlega og gerir þeim erfitt fyrir með samskipti við annað fólk í samfélaginu. Þó margir séu fylgjandi lögleiðingu vændis þá er almennt litið niður á þá aðila sem selja vændi. Flestir réttlæta þó sölu vændis þess vegna þess að eftirspurnin sé eðlileg.
„Þetta [neysla á vændi] er eins og þegar maður er svakalega svangur og er alveg sama hvað maður fær sér að borða, svo ef þig langar bara í kynlíf er þá ekki eðlilegt að vera alveg sama hvar þú færð það?“
-Tilvitnun í neytanda vændis úr skoskri rannsókn frá 2008-
Það viðhorf að vændi sé í lagi af því það sé til fólk sem vilji stunda vændi að atvinnu er oft notað til þess að þagga niður þá sem vinna gegn vændi. Það viðhorf væri gott og blessað ef eitthvað mikið væri til í því.
Það getur vel verið að einhver prósenta af þeim sem stunda vændi hafi alltaf haft vændi sem fyrsta val um atvinnu (þó ég leyfi mér að efast um það en ég hef ekki fundið neinar áræðanlegar rannsóknir sem sýna fram á hvorugt sjónarmið).
Mér finnst að við sem samfélag og einstaklingar ættum frekar að horfa á hvað rekur manneskju út í það að vilja selja líkama sinn frekar en að fagna því eða sætta okkur við það að einhverjir einstaklingar séu tilbúnir að starfa við það að svala fýsnum sem koma þeim ekki við.
Af hverju vændi?
Einnig þurfum við að horfa á okkar eigin samfélag og spyrja hvað það sé sem reki fólk út í það að kaupa sér vændi? Hvað er það í okkur sem segir að kynhvöt okkar sé mikilvægari en líf og velferð annarrar manneskju?
Eins fylgjandi og ég er því að fólk geri nákvæmlega það sem það vilji í lífinu (á meðan það skaðar ekki aðra) þá veit ég vel að ef ég á einhvertíma eftir að eignast börn og ef þau myndu koma til mín með stjörnur í augunum og bros á vör og tilkynna mér með stolti í röddinni:
„Mamma, mér tókst það! Ég lá undir algjörlega ókunnugum einstaklingi gegn greiðslu!
Þá myndi ég ekki fyllast stolti yfir því að barnið mitt væri að vinna við það sem því dreymdi um. Ég myndi hugsa um hvað mér hefði yfirsést í uppeldinu til þess að barnið mitt væri með það brenglaða sjálfsmynd að því langaði til þess að selja líkama sinn.
Ég vona að allir foreldrar myndu bregðast eins við.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.