Taglið hefur verið að koma sterkt inn undanfarið og það er um að gera að nýta sér þessa auðveldu aðferð við að halda hárinu smart, sérsaklega þegar það er mikið að gera eða ef maður vaknar á slæmum hárdegi og nennir ekki að eyða hálftíma í að slétta sig 😉
Það hefur verið áberandi að hafa hárið allt sleikt aftur og eins og margt sem ég mæli með hefur það verið áberandi á tískusýningarpöllunum.
Þessi útgáfa er mikið í anda hvernig Kate Moss var á 10. áratugnum en hann hefur líka verið að koma aftur í förðun hvað varðar brúna tóna. Það er frekar auðvelt að framkvæma þetta og besta ráðið sem ég hef fengið er að bleyta greiðuna eða hárburstann örlítið eða hafa hárið rakt, greiða hárið aftur og setja vax með smá glansi í það. Taka hárið svo í teygju og spreya það með hárspreyi.
Ef maður vill vera extra fínn að þá er hægt að taka hárlokk úr taglinu, vefja honum utan um teygjuna og festa undir með spennu, en þá sést teygjan ekki.
Það er líka flott að taka hárið í mjög lágt tagl og hafa restina af hárinu frekar lauslega tekið aftur til að fá “nýskriðin úr rúminu” útlitið. Gott er að byrja með hárið blautt, spreyja “leave in” næringu og hitavörn í það og blása það svo að náttúrulegir liðir fái að njóta sín. Cameron Diaz rokkaði þetta útlit á rauða dreglinum í vor.
Gamla góða túberingin í anda 7. áratugarins er líka komin aftur og það er vel hægt að blanda því inn í taglið ef maður á hársprey, glanssprey og góða greiðu. Takið einfaldlega fremsta hlutann af hárinu frá, túberið fyrir aftan, greiðið aftur yfir og skellið í teygju! Svo er hægt að hafa túberinguna aftar ef áhugi er fyrir því.
Eins og þið sjáið er allt leyfilegt því er alveg óþarfi að festa sig við aðeins eina útgáfu!
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com