Það er áberandi hve margar velja sér dökka liti þegar haustið gengur í garð. Einnig ber mikið á þurrum naglaböndum og höndum.
Hér koma nokkrar hugmyndir að haustnöglum og ráð við þurrum naglaböndum:
Lögunin á þessum nöglum hefur verið mjög vinsæl síðasta árið og sérstaklega hjá þeim sem vilja langar neglur. Þær eru gellulegar og mega hot!
Hér er svart gellakk sett á eigin neglur en persónulega finnst mér alltaf flottast að setja dökka liti á stuttar neglur.
Þessi svarti litur heitir Black Onyx og er frá OPI. Það er gaman að leika sér með yfirlakkið og munurinn er mikill á glans og möttu.
Þær sem fá sér matt gellakk yfir geta þó lakkað með venjulegu top coat yfir til að fá glansinn aftur! 🙂 Það sama gildir um að skipta frá glans yfir í matt, ef maður fær leið á áferðinni.
Ég fíla persónulega matt lakk yfir flesta dökka tóna og finnst það rokkaralegt. Mér finnst matta yfirlakkið ekki gera eins mikið fyrir ljósu litina og draga heldur úr þeim eða gera þá flatari.
Þessar neglur eru með svörtu gellakki en lakkað með venjulegu lakki yfir tvær neglur. Það er nefninlega alveg hægt að lakka yfir gellakk með ljósari lit ef maður hefur nógu gott lakk sem þekur vel.
Ég festi steinana á með venjulegu yfirlakki, smá dropa undir og svo lakk yfir alla nöglina. Ég reyni að forðast að nota lím ofan á mínar neglur ef ég er með gellakk á þeim.
Þessar eru frekar trylltar og ekki fyrir hvern sem er. Mér finnst mjög flott að setja annan lit upp við naglabandið. Það er hægt að blanda endalaust af litum saman og um að gera að prófa sig áfram!
Best er að lakka fyrst nöglina með litnum sem er upp við naglabandið (ljósi) og síðan með hinum litnum (rauði) og stilla pensilinn af. Einnig er gott ráð að hafa olnbogann skorðaðan þegar við þurfum að lakka af nákvæmni.
Ég hef prófað allskyns naglabandakrem og olíur en þessi er í uppáhaldi hjá mér.
Þessi er úr Avoplex línunni frá OPI og er avocado olía sem smýgur inn í húðina.
Það er því líkast að naglaböndin drekki hana í sig. Lyktin er alveg dásamleg og það er eitthvað kósí við að nudda henni á naglaböndin á kvöldin yfir sjónvarpinu.
Hún er einnig góð fyrir þær sem eru með þurra olnboga. Olían er til í naglalakksglasi og glasi með dropateljara.
Hulda Jónsdóttir Tölgyes er 28 ára og úr Reykjavík.
Hulda hefur lokið tveimur háskólaprófum í sálfræði og stefnir ótrauð á að læra enn meira innan þess sviðs á næstu árum.
Hún er jafnframt lærður naglafræðingur úr MOOD skólanum og einn af stofnendum poppkórsins Vocal Project.
Hulda er hundafrík sem naglalakkar stundum tíkina sína!