Við erum allt of oft að drífa okkur svo mikið að við eigum það til að gleyma því að hugsa vel um okkur og þá sértsaklega húðina okkar.
Auðvitað eru til frábær krem og aðrar snyrtivörur sem hjálpa okkur að halda húðinni fallegri og unglegri en það besta sem við getum gert er að byrja snemma að hugsa vel um okkur og fara vel með líkama okkar. Það eru til margar leiðir sem fyrirbyggja öldrun húðarinnar og halda okkur unglegum sem lengst og afhverju ekki bara að byrja í dag að hugsa vel um húðina?
Hér eru 11 góð og einföld ráð sem er gott að hafa í huga
1. Þú ert það sem þú borðar
Hollt og gott mataræði þar sem hugað er að góðu jafnvægi á milli trefja, ávaxta og grænmetis er nauðsynlegt.
2. Ekkert káf
Haltu höndunum eftir fremsta megni frá andlitinu og ekki gleyma að þrífa síman þinn reglulega því að það leynast fullt af bakteríum og öðrum óhreinindum bæði á höndum og símunum.
3. Vatnið gerir gæfumuninn
Drekktu nóg af vatni og reyndu að forðast gos í of miklu magni. Ef þú ert slæm í húðinni þá er gott að sleppa gosinu og öðrum sykruðum drykkjum alveg.
4. Enn og aftur..
Verndaðu húðina frá sólinni, notaðu sólarvörn.
5. Enga leti
Farðu aldrei að sofa án þess að þrífa á þér andlitið með andlitshreinsi og andlitsvatni og mundu eftir hálsinum og þeim svæðum sem þú berð á þig sólarpúður. Þvottapoki og vatn er ekki nóg þó svo að það sé rosalega gott að skvetta smá vatni framan í sig eftir að hreinsirinn hefur verið þvegin af.
6. Hvíldu þig, hvíld er góð
Mundu að hvílast vel. Lítill svefn og stress getur valdið því að þú færð bólur eða önnur útbrot.
7. Láttu sérfræðingana um þetta
Ekki fikta í eða kreista bólur. Láttu þær jafna sig og passaðu að þrífa húðina vel, líka þar sem bólurnar eru. Ef þú ert slæm skaltu ekki hika við að fara á snyrtistofu og fá sérfræðing til að líta á þær, eða húðlækni. Því fyrr því betra.
8. Notaðu maska, gefðu þér ‘boost’
Notaðu andlitsmaska sem hentar þinni húðtýpu í hverri viku. Ef þú átt ekki maska þá er tilvalið að búa hann til úr hráefnum sem þú átt heima hjá þér.
9. Af með dauðar húðfrumur
Mundu að nota mildan skrúbb sem hentar þinni húðtýpu, það þarf að djúphreinsa húðina og ná burtu dauðum húðfrumum og það helst einu sinni í viku.
10. Léttur farði, réttar vörur
Notaðu farða sem hentar þinni húðtýpu og reyndu að nota eins lítið og þú kemst upp með. Jafnvel gott að skipta yfir í litað dagkrem, hyljara og sólarpúður fyrir þetta hversdagslega “lúkk” og nota þá farðan meira sem spari, sérstaklega ef þú ert slæm í húðinni.
11. Kvölds og morgna, réttu kremin
Ekki gleyma að bera á þig krem. Dagkrem á morgnanna og næturkrem fyrir svefnin. Það er allt önnur virki í næturkremunum þannig að það er oftast gott að eiga bæði til.
Bjarney Vigdís er mikil áhugamanneskja um allt sem viðkemur heilsu, uppeldi, eldamennsku, tísku, förðun, handavinnu, fegrun heimilisins og öðru pjatti. Hún er menntaður förðunarfræðingur og er jafnframt framúrskarandi húsfreyja sem heldur einnig úti sinu eigin bloggi. Hún býr á vesturlandi í litlum bæ ásamt manni sínum og 6 börnum.