Í desember skrifaði ég um hvernig hægt væri að fá þykkar og fallegar augabrúnir. Fyrir þær sem vilja bæta við þekkinguna og lita augabrúnir sjálfar heima koma hér nokkur góð ráð úr reynslubankanum.
Mótun:
Mótun augabrúnanna fer bæði eftir náttúrulegri mótun þeirra og andlitsfalli viðkomandi manneskju. Í færslunni sem ég nefndi hér fyrir ofan sést hvernig mótunin ætti helst að vera
a) innri enda ætti að mæla út frá nefi að innri augnkrók
b) hæsta partinn upp frá augasteini og…
c) ytri endann frá nefi að ytri augnkrók.
Liturinn:
Almenn þumalputtaregla er að litur augabrúnanna passi við dekksta hluta hársins. Margar ljóskur eru þó með náttúrulegar dökkar brúnir og það er um að gera að finna litinn sem hentar þér. Passaðu þig þó á því að augabrúnirnar líti ekki of harkalega út á andlitinu (nema tilgangurinn sé einmitt sá). Kosturinn við að lita augabrúnir er að þú þarft ekki að fylla upp í þær með blýanti/augnskugga meðan liturinn endist.
Litir eru aðallega seldir í apótekum en þeir koma í nokkrum tegundum og litum. Litirnir eru oftast mismunandi tónar af brúnu, svartur, blásvartur og rauðbrúnn. Festirinn er yfirleitt keyptur sér og kemur í annaðhvort krem/gelformi eða dropaformi.
ATH: Ekki nota hárlit í augabrúnir þar sem að hann getur skaðað augnsvæðið. Lestu leiðbeiningarnar á litapakkningunni vel áður en þú notar fastan augabrúnalit í fyrsta skipti.
Leiðbeiningar:
- Fjarlægðu allan farða og óhreinindi af augabrúnasvæðinu með farðahreinsi og vatni
- Berðu litinn á augabrúnirnar með þar til gerðum pinna. Hyldu öll hár sem þú vilt lita með litnum og mótaðu augabrúnirnar í leiðinni.
- Lengd tímans sem þú bíður með litinn á fer eftir því hvað þú vilt ná fram dökkum lit
- Þrífðu litinn af með þurri bómullarskífu, bleyttu svo aðra skífu til að ná restinni af og síðast notarðu farðahreinsi
- Ef þú vilt geturðu plokkað aukahár undan brúnunum og mótað þær enn betur með því
Ef þú treystir þér ekki í heimalitun þá geturðu alltaf heimsótt einhverja af þessum frábæru snyrtifræðingum sem eru starfandi á landinu og fengið þær til að lita augabrúnirnar fyrir þig og/eða plokka þær.
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com