Það prýðir alla að hafa fallega snyrtar neglur og til þess er hægt að nota einföld en áhrifarík ráð.
Mestu skiptir að sinna þessu af og til á hverjum degi eða annan hvern dag. Ef þú ert að byggja upp viðkvæmar neglur er gott að nota þar til gerðar vörur og fylgja leiðbeiningunum vel. Einnig er vert að minna á notkun naglbanda olíu eða krema. Neglur geta átt það til að brotna af þurrki en olíurnar koma í veg fyrir þetta. Nóg um það, vindum okkur í ráðin!
***
1. Fallegasta formið á nöglum
– Er ekki kassalaga, of langt eða stutt heldur mitt þar á milli. Þú mótar þetta fallega form með því að ‘spegla’ lögun naglbandanna. Kassalaga form lætur fingurna líta út fyrir að vera stutta og kubbslega.
2. Allar jafn langar
Til að tryggja að neglurnar séu allar jafn langar skaltu bera lengdina saman við nöglina á fingur hinnar handarinnar.
3. Loftbólur
Ekki hrista naglalakkið. Þá myndast loftbólur. Rúllaðu frekar glasinu milli handanna. Það blandar lakkinu en myndar ekki loftbólur.
4. Hrein nögl, fallegt lakk
Áður en þú lakkar hreina nögl skaltu fara eina umferð yfir með naglalakkseyði. Það fjarlægir náttúrlegar olíur og fitu sem geta látið lakkið flagna of fljótt.
5. Burstatrikk
Ein góð leið til að bera naglalakk á er að halda burstanum milli þumalfingurs og löngutangar en vísifingur hvílir á toppi tappanns/burstans.
6. Þunnt lag
Til að fá sem bestan árangur skaltu bera þunnt lag af naglalakki á neglurnar. Settu fyrst þunnt lag af ‘basecoat’ og svo koma þunnar umferðir af lakki. Láttu fyrri umferð þorna í nokkrar mínútur áður en sú næsta er borin á. Að lokum kemur þunnt lag af yfirlakki sem býr til meiri glans og lakkið helst lengur.
7. Lagað
Þegar lakkið er klárt skaltu nota þar til gerða ‘manicure’ spítu til að laga misfellur.
8. Á hraðferð?
Flýttu fyrir því að lakkið á táslunum þorni með því að nota kalda blásturinn á hárþurrkunni í eina mínútu í senn. Einnig er snjallt að dreypa naglbandaolíu yfir lakkið því þá kemurðu í veg fyrir að hár eða annað festist í því og aflagi það.
9. Gular neglur
Ef neglurnar eru gular er hægt að laga það með sítrónusafa eða lavenderolíu. Þú setur dropa á nöglina og slípar svo yfir. Það er einnig hægt að lýsa neglur með því að bursta yfir þær með tannkremi sem er notað til að hvítta tennur.
10. SPA heima
Ef þú vilt smá svona SPA fílíng heima er sniðugt að setja rakan þvottapoka í örbylgjuna í nokkrar mínútur, væta fæturna vel í rakakremi/body lotion og vefja svo þottapokanum/handklæðinu heitu utan um. Mmmmm*
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.