Súkkulaði er veikur punktur og “guilty pleasure” í lífi margra kvenmanna. Við kjömsum á gotteríinu af mikilli innlifun sem er gróflega lituð af samviskubiti því súkkulaði er jú ákaflega fitandi og óhollt, hvernig sem á það er litið… eða hvað?
Ég hef alltaf haldið því fram að súkkulaði sé grænmeti og ekkert annað, þar sem það er unnið úr súkkulaðibauninni, aðallega til að friða samviskuna. En eftir “gúglun” komst ég að því að súkkulaði er ein ríkasta auðlind andoxunarefna sem hægt er að finna! Og andoxunarefni eru einmitt þeir vinir okkar sem vinna hörðum höndum að því að halda húðinni unglegri og vernda líkamann gegn sindurefnum sem hóta að ráðast á ónæmiskerfið í okkur svo eitthvað sé nefnt.
Nú er ég ekki að tala um að það sé ráðlegt að rjúka út í 10-11, kaupa mars í kílóatali og tæta það í sig, en tiltölulega hreint súkkulaði er ekki bara gott á bragðið, heldur er það líka gott fyrir heilsuna og húðina 🙂 Þessvegna er alveg upplagt að nota þessa náttúruauðlind þegar kemur að því að dekra við sjálfa sig og upplifa yndislegt og náttúrulegt súkkulaðispa heima í stofu! Hér fyrir neðan má finna uppskrift að súkkulaðimaska sem hægt er að sulla saman úr afgöngunum í eldhúsinu.
Heimagerður súkkulaðimaski
1/2 bolli ósætt kakóduft
4 matskeiðar rjómi
3 teskeiðar kotasæla
3 teskeiðar vel þroskað avokadó
1/4 bolli hunang
3 matskeiðar haframjöl
Blanda hráefninu saman í mixer. Bera á andlitið í jöfnu lagi og láta bíða í 10 mínútur. Þurrka svo af með rökum klút og bera svo á sig rakakrem.
Einfalt, ódýrt og umfram allt- áhrifaríkt!! Njótið vel!
Hrafnhildur, eða Krummi, er mamma, förðunarfræðingur, leikkona, kærasta, systir, dóttir, handverkskona og listakona svo fátt eitt sé nefnt. Ung flutti hún frá Sauðárkróki til Reykjavíkur þar sem hún lærði förðunarfræði en seinna flutti hún til Alabama, USA þar sem hún lærði leiklist. Eftir nokkur ár í Bandaríkjunum lá leið hennar aftur til Sauðárkróks og hún er því rödd landsbyggðarinnar á meðan pjattrófa. Hrafnhildur er fædd 21. febrúar árið 1980 og er fiskur.