Ég hef alltaf haft sérstaklega mikinn áhuga á húðumhirðu. Ég elska að dekra við húðina mína og það er mér algjört forgangsatriði að hugsa vel um hana.
Ég ákvað því að taka saman smá lista yfir þær vörur sem mér finnst nauðsynlegt að eiga og finnst að allir ættu að fjárfesta í og deila með ykkur. Hér kemur listinn:
1. Andlitshreinsir
Það er mjög mikilvægt að hreinsa andlitið vel á kvöldin og á morgnanna, bæði til að taka burt farðann og óhreinindin sem safnast yfir daginn/nóttina.
2. Augnfarðahreinsir
Góður augnfarðahreinsir sem tekur augnfarðann 100% af er líka afar mikilvægur
3. Andlitsvatn
Andlitsvatnið tekur restina af óhreinindunum af andlitinu og “lokar” húðinni. Andlitsvatnið er notað þegar búið er að nota andlitshreinsi.
4. Kornakrem
Mér finnst kornakrem eitt það mikilvægasta í “húð-rútínunni” minni. Almennt séð er mælt með því að nota kornakrem 2-3 sinnum í viku, en persónulega finnst mér betra að nota það oftar. Kornakremið tekur burt dauðar húðfrumur og örvar blóðflæðið. Mikilvægt er þó að fara varlega og skrúbba ekki of harkalega.
5. Dagkrem
Þegar andlitshreinsunni er lokið er nauðsynlegt að bera á sig gott dagkrem sem hentar þinni húðtýpu. Dagkremin eru jafn mismunandi og þau eru mörg, en gegna því hlutverki að næra og verja húðina.
6. Næturkrem
Næturkremið er hannað með það í huga að næra húðina meðan við sofum. Næturkremin eru oftast þykkari en dagkremin og næra betur auk þess sem þau innihalda enga sólarvörn. Það gerist margt í líkamanum þegar við sofum og næturkremin vinna einstaklega vel á húðinni þegar við hvílumst.
7. Augnkrem
Augnkreminu má svo ekki gleyma. Það getur verið vandasamt að finna sér rétt augnkrem, en þegar ég vel mér augnkrem finnst mér mikilvægast að þau séu ekki of “þung”. Ég nota augnkrem oftast bara áður en ég fer að sofa.
8. Serum
Serum fer dýpra inn í húðina en hefðbundin krem og virkar þar af leiðandi mun öflugra á húðina. Ég mæli með því að nota serum á kvöldin eftir húðhreinsun, undir næturkremið.
9. Maski
Allir ættu að eiga að minnsta kosti einn maska til að nota 1-2x í viku. Maskar geta verið mismunandi og haft mismunadi tilgang. Markmiðið getur til dæmis verið að fá raka, hreinsa húðina og svo framvegis. Veldu þér maska sem hentar þinni húðgerð.
10. Sólarvörn
Sólarvörninni má alls ekki gleyma því hún ver húðina fyrir geislum sólarinnar og heldur þannig húðinni stöðugri. Mér finnst rosa gott að blanda henni saman við rakakremið mitt. Sólarvörnin er alveg sérstaklega mikilvæg yfir sumartímann.
Þó svo að góð húðumhirða sé gífurlega mikilvægur þáttur í að halda húðinni fallegri og heilbrigðri, eru samt sem áður ýmsir þættir sem við höfum ekki stjórn á sem hafa áhrif á útlit hennar, svo sem hormónar, veðurfar og fleira.
Það er því mikilvægt að gera það sem við getum til að vega upp á móti, með því að fjárfesta í réttu húðvörunum.
Munum líka að velja alltaf húðvörur eftir okkar húðtýpu.
Verum góð við húðina okkar 🙂
_____________________________________________________________
Annika Vignisdóttir er förðunarfræðingur og nemi í MSc markaðsfræði í HR. Hún, sem er fædd í meyjarmerkinu, elskar gjörsamlega allt sem tengist förðun, húðumhirðu og snyrtivörum en hefur einnig mjög gaman af dansi, tísku, hreyfingu og fólki með svartan húmor. Annika lifir samkvæmt þeirri hugmyndafræði að gera sem mest af því sem er skemmtilegt. Ef þú hefur fyrirspurnir varðandi förðun eða samstarf er þér velkomið að hafa samband við hana í gegnum mail: annikavignis@gmail.com