Um daginn fékk ég í hendurnar sumarlínu Yves Saint Laurent. Litirnir í henni minna á sólarlag í Sahara eyðimörkinni og eru hver öðrum fallegri.
Ég ákvað að prufa mig áfram með augnskuggapallettuna í línunni ásamt fjólubláum augnblýanti sem fylgir einnig með.
Eftir stutta umhugsun ákvað ég að gera klassíska brúna skyggingu að ofan og nota blýantinn undir augunum. Mikið hefur farið fyrir því trendi undanfarið og því var upplagt að nota þessar fallegu litasamsetningar í verkið.
Yfir allt augnlokið blandaði ég saman perlulitaða, gyllta og bleika litnum. Innst inni notaði ég mest perlulitaða, færði mig svo yfir í bleikt og loks gyllta sem ég skyggði aðeins upp á við.
Því næst notaði ég brúna litinn, skyggði með honum og fylgdi augnbeininu mínu. Síðan notaði ég mjúkan bursta og blandaði öllu vel og vandlega saman. Perlulitinn notaði ég svo einnig undir augbrúnina til að lýsa upp og mýkja förðunina.
Undir augun notaði ég einfaldlega fjólubláa blýantinn inn í augun. Þar á eftir tók ég pensil með fjólubláa augnskugganum og dúmpaði honum létt ofan á blýantslínuna inni í auganu. Þetta er frábært trikk til þess að fá litinn til að haldast. Það er nefnilega ekkert er leiðinlegra að vera með fína augnförðun sem þarf sífellt að lagfæra.
Verkinu lýkur að sjálfsögðu með svörtum blautum eye-liner og maskara, enda er ég ekki húsum hæf án þess að vera með maskara.
Pallettan er frábær til að nota bæði fyrir dag-og kvöldútlit. Að degi til myndi ég alveg eins nota alla litina, en í öðrum hlutföllum. Þá myndi ég hafa fjólubláa blýantinn í stað blauta eye-linerins en blýanturinn er mjúkur og þægilegur að nota. Eins myndi ég mýkja brúnu skygginguna og leyfa ljósu litunum að njóta sín.
Glæsileg palletta frá YSL sem er auðveld í notkun og bíður upp á mörg falleg útlit.
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.