Við árlega endurskipulagningu á fataskápnum mínum fann ég sokkabuxur sem voru enn í umbúðunum.
Við nánari athugun kom í ljós að þetta væru sokkabuxur sem mundu gera afturendann á mér óhemju stinnann, lögulegan og sennilega mundi mér verða boðin staða sem fótómódel útaf vaxtarlagi innan tíðar.
Ég tætti sokkabuxurnar úr umbúðunum, tryllt af tilhlökkun að fara í þessar töfrabuxur.
Skref eitt var að reyna að hysja þessar buxur upp um mig án þess að fá lykkjufall. Tókst ekki, risa lykkjufall í hæsta gæðaflokki.
Þegar að ég var búin að ná buxunum upp að miðjum lærum sá ég að nú þyrfti gott átak til að ná þeim almennilega upp. Það er bara ekkert grín. Ég tosaði buxurnar upp af öllu afli og missti takið og sló sjálfa mig ærlega utanundir. Þrátt fyrir áverkana ákvað ég að gefast ekki upp og hélt áfram að hisja töfrabuxurnar upp.
Ég girti vel upp yfir nafla, eiginlega upp á miðja bringu. Velti því fyrir mér hvort að þær væru ekki of stórar, en það gat ekki verið, þær voru svo þröngar að ég var í þann veginn að kafna. Nú var komið að því að kíkja í spegilinn. Reyndar var afturendinn á mér mjög stinnur, en fátt þokkafullt við þessa múderingu.
Ég fann hvert líffærið af öðru kremjast hægt og rólega og átti töluvert erfitt með andardrátt. Núna þurfti ég pásu eftir þessi átök og ég settist niður. Hafði sjálfa mig grunaða um að hafa skaddað rifbein í látunum. Á meðan ég sat og reyndi að ná andanum upp á nýtt fann ég hvernig sokkabuxurnar rúlluðu smá saman niður af bringunni. Ég telst seint sérlega digur en þarna sem ég sat og sokkabuxurnar búnar að rúlla niður á mjaðmabeinin, sköpuðust þessi agalega fínu ástarhandföng, muffins, hliðarspik eða hvað sem það kallast.
Sennilega hef ég aldrei verið tignarlegri en akkúrat þarna en ég náði andanum upp á nýtt og horfðist í augu við þá staðreynd að lögmál þyngdaraflsins gerir það að verkum að afturendinn kemur til með að nálgast jörðina aðeins meira með hverju árinu. Hið jákvæða er að það er bara allt í lagi – svo lengi sem ég get andað!
Eftir þessar raunir er ég sannfærð um að Hringjarinn í Notre Dame var bara sennilega í alltof litlum Shock Up.
Kveðja,
Guðrún Hulda Jónsdóttir
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.