Undanfarin ár hef ég pælt mikið í því hvernig hægt sé að hugsa vel um húðina án þess að það þurfi að kosta mann formúgu.
Ég hef fengið margar góðar uppskriftir að heimagerðum möskum og skrúbbum
Hér eru nokkur góð ráð sem hafa virkað mjög vel:
Gufa
Sjóddu vatn í potti og settu í stóra skál. Leyfið að rjúka aðeins úr vatninu í smástund, settu andlitið yfir og handklæði/viskustykki ofan á höfuðið. Bíddu yfir skálinni í örfáar mínútur og leyfðu húðinni að opna sig. Svitinn gerir það að verkum að það losnar um óhreinindi.
Hafraskrúbbur
Það er hægt að gera margskonar skrúbba heima fyrir og ekki amalegt að hafa ofurfæðu eins og haframjöl í honum sem ríkt er af vítamínum og steinefnum. Minn uppáhaldsskrúbbur er gerður á eftirfarandi hátt:
- 1-2 msk af ólívuolía
- 1 tsk af haframjöl
- 1 tsk mulið Maldon sjávarsalt
Öllu blandað saman, nuddað með hringlaga hreyfingum á húðina og skolað af með volgu vatni. Passaðu að mylja sjávarsaltið vel ef það á að nota skrúbbinn á andlit vegna þess að það getur rispað húðina. Þessi blanda djúphreinsar og fjarlægir dauðar húðfrumur.
AB mjólk og lyftiduft- Djúphreinsir
AB mjólkin er þekkt fyrir að vinna á allskyns vandamálum eins og magakveisu, sveppasýkingum og þar fram eftir götunum. Og hún virkar líka á andlitið! Blandið saman 1-2 msk AB mjólk og 1-2 tsk lyftiduft, ekkert flóknara! Nuddið á húðina, leyfið að liggja á henni í 2-3 mínútur og hreinsið af. Veit um fátt sem fjarlægir óhreinindi jafn vel og húðin á manni verður mýkri en allt.
Eggjahvítumaski
Eggjahvítur eru þekktar fyrir að vera góðar í hár og þessi maski er tilvalinn fyrir feita húð eða bara ef þú vilt smá skyndistrekkingu. Þeyttu smá eggjahvítur saman með gaffli, berðu á húðina, láttu þorna og bíddu í ca 15 mínútur áður en þú skolar af.
Maski úr hreinni jógúrt og hunangi
Góður að sefa húðina og veita henni raka. Virkar mjög vel fyrir viðkvæma og þurra húð en er hægt að nota á allar húðgerðir. Blandið 1. dl af hreinni jógúrt og einni teskeið af hunangi saman, berið á húðina og látið bíða í um 15 mínútur.
Avocado, banana og hunangsmaski
Þessi maski er mjög rakagefandi! Avacado, eða lárperu ávöxturinn er ríkur af B og E vítamínum sem og náttúrulegum olíum og steinefnum. Blandið saman 1/2 maukuðum avacado, 1/2 maukuðum banana og einni teskið af hunangi. Berið á andlit og háls og látið bíða í 15-20 mínútur, hreinsið svo af með volgu vatni.
Svo er algjör snilld að fara yfir húðina með köldu vatni eða andlitsvatni og setja gott krem á sig eftir allar andlitsmeðferðir.
Ég mæli með því að konur á öllum aldri taki reglulega frá tíma og njóti þess að dekra við sig, eins og til dæmis á sunnudagskvöldi eftir mat. Svo skemmir ekki að fá sér jarðaber og einhvern góðan drykk með.
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com