Gamlárskvöld er eitt af mínum uppáhalds. Bara af því að þá get ég sturtað á mig glimmeri að vild. Sem ég geri nú að vísu við öll tilefni – en fyrir þetta kvöld er svo sannarlega leyfilegt að fara yfir strikið. Að minnsta kosti hvað glimmerið varðar.
Klukkan tvö á gamlársdag hefst minn tími. Þá helli ég mér kampavíni í glas og hefst handa við að gera sjálfa mig ómótstæðilega. Já, áramótaundirbúningur hefst ávallt klukkan tvö. Þá er ég passlega klár í slaginn þegar maturinn hefst klukkan sex. Já þetta ferli tekur fjóra tíma.
Ég skipti yfirleitt um föt allavega fimm sinnum á þessum fjórum tímum. Fer svo nokkrum sinnum að grenja yfir því að eiga engin föt. Geri um það bil tíu hárgreiðslutilraunir og fer svo að grenja yfir því að vera með ömurlegt hár.
Stundum er ég búin að mála mig en fæ svo kast og þríf allt af andlitinu á mér. Úff, svo ekki sé minnst á þegar ég hefst handa við að koma gerviaugnhárunum á – þá fyrst verður fjandinn laus! Þetta endar yfirleitt með grenji yfir því hvað ég sé misheppnuð og kunni ekki að mála mig.
En að hárinu – ég hef aðeins verið að leita mér að innblæstri og það með góðum fyrirvara. Ég þoli ekki að standa grenjandi með burstann í hárinu á sjálfan gamlársdag.
Ég elska stóra snúða. Verst að mínir misheppnast alltaf eitthvað og ég lít bara út eins og ég sé með útvortis æxli á höfðinu.
Það er nú fullkomlega leyfilegt að leika sér með hvers kyns hárskraut á áramótunum.
Ég er ferlega skotin í svona blómakrönsum. Verst að þeir fara mér virkilega illa. Alveg bara virkilega!
Töff tögl eru alltaf við hæfi. Allsstaðar. Meira að segja á áramótunum.
Fléttur geta alveg verið flottar – í fallegu hári að minnsta kosti.
Krullur. Einfalt, fínt og fallegt. Nema í mínu hári, það verður bara alltaf eins og strákofi ef ég kem nálægt því með krullujárni.
Já það eru talsverðar líkur á að ég standi skælandi með burstann í hárinu á gamlársdag. Jæja, ég drekk þá bara þeim mun meira kampavín.
Guðrún Veiga er mannfræðingur að mennt. Týpískt naut, kann vel að meta veraldleg gæði og þrjósk með eindæmum, fagurkeri og eyðslukló.
Naglalökk eru hennar helsti veikleiki og líkamsrækt stundar hún ekki en viðheldur brennslunni með óhóflegri kaffidrykkju.