Frá tímum forn Egypta hafa bæði konur og menn notað kol til að undirstrika augun, auka styrkleika þeirra, verja þau og vernda fyrir hinu illa.
Undanfarið hef ég notað sambærileg kol til að mála augun, ekki ósvipuð þeim sem sem sjálf Kleópatra notaði til að ná fram sínu seiðandi augnaráði.
Kolin nefnast Indian Kajal og eru líkt og nafnið ber til kynna frá Indlandi. Kolin eru 100% náttúruleg og innihalda engin kemísk efni, blý eða skaðlega gerviliti.
Meginástæðan fyrir því að ég hef ekki notað mikið svarta augnblýanta í hversdagsförðun er sú að það ertir oft augun mín og þar af leiðandi veðrast sminkið illa yfir daginn.
Ég ákvað því að kanna hvernig Indian Kajal kolin virkuðu í dagsförðun, bæði hvernig augun tækju kolunum og hvort augnmálingin héldi sér fram á kvöld. Markmiðið var að enda daginn með seiðandi Kleópötru augu en ekki eins og veðurtepptur pandabjörn.
Hér notaði ég kolin bæði til að gera þykka ,,kisu-línu” á augnlokið og inn í augun. Kolin eru mjúk, svo það er auðvelt að vinna með þau en samtímis haldast þau vel á. Kolin koma í keilulaga formi svo það er fljótlegt að vinna með þau – til að gera línuna inni í auganu lagði ég kolin lárétt á augnlínuna, lokaði augunum og nuddaði kolinu mjúklega fram og tilbaka eftir augnlínunni.
Útkoman er seiðandi og einföld förðun sem gefur augunum dularfullan en jafnframt sterkan svip. Möguleikarnir á að taka kolförðun lengra eru endalausir en fyrir utan þá útgáfu sem ég gerði væri hægt að nota kolin sem t.d augnskugga, lit í augnhárin, á augabrúnirnar, í klassískri skyggingu, í smokey-förðun, ein og sér… og svona mætti lengi telja.
Iðjulega sjást kol notuð í förðunum á tískuvikum, í tímaritum, bíómyndum og jafnvel í sögubókum svo það er til nóg af stöðum til að fá hugmyndir og innblástur.
Kolaförðunin hélt sér vel allan daginn og engin erting var til staðar. Kolin hafa líka þann eiginleika að þó maður nuddi aðeins augun þá verður förðunin í raun flottari aðeins veðruð eða smudgy.
Auk svartra kola koma þau einnig í brúnu, ljós- og dökkbláu, vínrauðu,ljós- og flöskugrænum, koparlituðu, gull, sifur og svörtu með shimmer-ögnum í.
Hin seiðandi kolsvörtu augu hafa verið í tísku í rúmlega fimm þúsund ár og má því með sanni segja að kolaförðun sé orðin algjör klassík.
Indian Kajal heldur úti facebook síðu hér. Þar má panta kolin og fá nánari upplýsingar.
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.