Það eru fá snyrtivörumerki jafn endalaust glamúrus og Guerlain. Einhvernveginn finnst mér eins og drottningar heimsins hljóti allar að hafa notað þetta flotta franska merki á einhverju tímabili (ef ekki alltaf) og eflaust fara þær reglulega á Guerlain snyrtistofur í andlitsbað.
Sjálf varð þess aðnjótandi á dögunum að fá að upplifa lúxus-Guerlain andlitsbað í Snyrtistofunni í Laugum.
Ég sé sannarlega ekki eftir þessari frábæru upplifun og skil vel að konur verði margar háðar því með aldrinum að fara á snyrstistofur og láta stressið og áhyggjurnar líða úr sér meðan útlitið er fegrað. Hef einsett mér að gera þetta reglulega enda er þetta spurningin um að vera – eða vera ekki Pjattrófa og taka titilinn alla leið. Er það ekki?
Upplifunin hófst á því að Vida, snyrtifræðingur, tók á móti mér og leiddi mig inn í notalegt meðferðarherbergi sem var lýst upp með kertum. Hún spurði reyndar hvort ég hafi farið eða ætlaði mér í baðstofuna en ég hafði ekki tíma þann daginn (baðstofan er innifalin í öllum meðferðum á snyrtistofunni). Þess í stað lagði ég mig á bekkinn þar sem hún pakkaði mér inn í kósí teppi.
Hvað gerðist?
Andlitsbaðið hófst á því að allur farði var tekinn af með hreinsimjólk. Svo spurði Vida hvernig mér liði í húðinni… Þreytt? Þurr? Gömul? Ég var bæði stressuð og þreytt og svaraði sem satt var – gööömul.
Þá kveikti hún á unaðslegri andlitsgufu og hófst handa við að nudda mig með djúphreinsandi kornakremi. Í kjölfarið fékk ég svo 25 mínútna andlitsnudd sem er hannað af Guerlain og ætlað að stinna og þétta húðina. Og ég segi þér það að andlitsnudd er alls ekkert síðra en líkamsnudd. Dásamlega slakandi og notalegt. Næst var það svo höfuðið sem fékk sitt nudd, hársvörðurinn, aftan á hálsinum og svo handa og fótanudd. Mmmmm… born again!
Að þessu loknu var paraffín maski borin á hendur og fætur og svo voru heitir bakstrar settir utan um. Heitt og notalegt og einstaklega slakandi.
Lúxusmaski var borin á andlitið meðan ég lá með innpakkaðar hendur og fætur, einskonar gríma sem dregur verulega úr fínum línum og svitaholum og svo fékk ég að liggja og slaka á meðan róandi tónlistin fyllti herbergið og ég fann sjálfa mig endurfæðast eins og Venus úr skelinni.
Að þessu öllu loknu fékk ég viðeigandi serum og augnkrem og létta förðun með Guerlain vörum sem er stór plús því það er ekki alltaf gaman að koma úfin með olíuborið hár úr snyrtimeðferð.
Niðurstaða
Þegar ég kom út í bíl og leit í spegil eftir að hafa legið í dekri í einn og hálfan tíma fannst mér eins og ég hefði yngst um svona fimm ár. Húðin var öll slétt og fín og ég ljómaði eins og bólulaust fermingarbarn. Þvílíka sælan!
Guerlain lúxus meðferðin sem ég fór í tekur 120 mínútur og er hver mínúta sannkölluð sæla en það er einnig hægt að fara í klukkustundar meðferð sem kostar minna en er unaðsleg líka og eins er hægt að taka mikið lengri meðferðir þar sem líkaminn er nuddaður og skrúbbaður líka.
Guerlain dekur er frábær hugmynd fyrir þær sem vilja gera vel við sig. Gefa sér afmælisgjöf, verðlauna sig fyrir vel unnin störf eða finnst þær bara eiga eitthvað gott skilið og langar að splæsa í eitthvað annað en föt svona einu sinni.
Þetta er líka æðisleg afmælisgjöf til mömmu, ömmu eða vinkonu nú eða til hennar sem ætlar að ganga upp að altarinu – Þá er svona dekur algerlega nauðsynlegt til að ná í burtu öllu undirbúningsstressinu og kalla fram fegurðina.
Á Íslandi er boðið upp á Guerlain meðferðir í Riverside SPA á Hótel Selfossi og á snyrtistofunnni Betri líðan á Akureyri og svo að sjálfssögðu í Laugum SPA. Ef þú átt svo leið um Orlando, París, New York eða Mílanó þá eru hreint dýrðlegar Guerlain stofur þar sem hjálpa þér að endurfæðast sem drottningin af Venus.
Smelltu hér til að skoða nokkrar myndir af Guerlain stofum í Orlando og París en til að vita meira er hægt að kíkja á guerlainspa.com og til að vita allt um meðferðirnar í Laugum SPA skaltu smella HÉR.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.