Bara nafnið eitt er lokkandi og mjúkt. Nákvæmlega eins og hendurnar á mér urðu eftir að ég bar á þær jojoba olíu í einhverju kasti. Olíu sem ég hafði einhvern tíma keypt til að bera í hársvörðinn til að mýkja hann.. en mér fannst það allt of feitt og eftir það hafði olían góða staðið eins og stytta í baðskápnum um langa hríð.
Það var annað hvort að henda henni, geyma hana áfram þar til einn daginn að ég ræki mig í hana og smallaði dollunni á gólfið með tilheyrandi sulli … eða þá að nota hana bara í eitthvað annað. Það er nú aðal ástæða þess að ég notaði gömlu jojoba olíuna á þurru hendurnar mínar sem ég hef ekki náð að mýkja í vetur… sama hversu marga fína handaáburði ég nota.
Ég má til með að segja þér frá þessu því árangurinn var hrein snilld. Jojoba olían er mjög feit en hún smaug þvílíkt vel inn í hendurnar og þær urðu silkimjúkar. Þetta er ódýr og góður handáburður, ekki með neinum lyktarefnum og allir ættu að geta notað hann með góðum árangri.
Ég reyndar þvoði hendurnar með sápu eftir að mér fannst olían vera komin vel inn í húðina, vildi ekki fá neitt klístur í fötin mín. Jojoba olían hentar öllum húðgerðum afar vel og sérstaklega þurri húð og hári (til dæmis þeim sem eru með exem í hársverði).
Það sem færri vita er að olían er í raun og veru vax sem líkist húðfitu og það kemst mjög auðveldlega inn í gegnum húðina og nærir hana. Jojoba inniheldur meðal annars prótein, vítamín og steinefni.
Jojoba er góð fyrir eldri húð því hún mýkir hana, gefur raka og sléttir einnig. Eins hefur hún þann eiginleika að þrána ekki… sem er ástæðan fyrir því að ég gat óhrædd notað gömlu jojoba dolluna í baðskápnum og einmitt þess vegna er algent að finna olíuna í ilmvatnsblöndum.
Hér eru nokkrar fleiri leiðir til að nota Jojoba:
Á eyrnapinna til að fjarlægja farða
Í hárinu yfir nóttina sem djúpnæringu, hreinsist úr að morgni
Sem rakagjafa fyrir húðina
Til að mýkja húðina á milli þess sem þú hreinsar hana og berð á hana dagkrem
Bættu henni í sjampóið eða hárnæringuna
Notaðu hana á hendur og naglbönd
Notaðu jojoba olíu eftir rakstur
Dúmpaðu henni á bómull kringum augun, hún virkar vel ofan á hyljarann
Á gömul ör, hún hjálpar til við að fela þau
Til að hreinsa förðunarbursta
Ef þú ert með feita og glansandi húð þá er frábært að bera jojoba olíu á hana áður en þú málar þig.
Bættu henni út í sturtusápuna
Settu örlítið af henni í rakt hárið fyrir blástur
Notaðu hana til að jafna út húðlitinn
Á þurrkubletti
Blandaðu henni við grófan sykur og notaðu sem skrúbb
Jojoba olía er nokkuð ódýr og fæst í öllum helstu heilsubúðum og hjá Kolbrúnu grasalækni.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.